Hátíðin Dagar myrkurs hefst á morgun

Hátíðin Dagar myrkurs hefst á morgun 28. október og stendur fram á sunnudag. Þetta er í tuttugasta og fyrsta skipti sem hátíðin er haldin.  Hátíðin er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi og hefur það að markmiði að hvetja til samveru.

Í tilkynningu segir að í ár verði lögð áhersla á að nýta tæknina og brydda upp á alls konar nýjungum í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu.  Hátíðin hefur sterka tengingu við íslenska og keltneska siði frá fornri tíð. 
 
„Hátíðin hefur verið haldin á ári hverju í tuttugu ár og er markmið hennar að við bjóðum hverju öðru upp á skemmtilega afþreyingu í svartasta skammdeginu.  Það gerum við með því að búa til viðburði sem lýsa upp myrkrið, viðburði sem fela í sér rómantík, drauga, fornar hefðir í bland við nýjar, um leið og við tryggjum að farið sé eftir öllum lögum og reglum sem gilda um samveru á þessum breyttu tímum,“ segir í tilkynningunni.

Stýrihópur Daga myrkurs hittist fyrir skemmstu en í honum sitja m.a. menningarfulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi og þar var ákveðið að í ár yrðu viðburðir með öðru sniði en venjulega í ljósi COVID.  Áhersla yrði lögð á að nýta tæknina, t.d. framleiðsla á hlaðvörpum þar sem lesnar yrðu sögur t.d. af draugum og vættum.  Auk þess er fyrirhugað að halda bílabíó og hryllingsmyndabíó.
 
Fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir eru hvött til þátttöku með því að vera með tilboð á vörum og með því að lýsa upp sínar byggingar.  Að sama skapi eru íbúar hvattir til að lýsa upp heimili sín og í ár er sérstaklega hvatt til þess að allir íbúar velji einn glugga á áberandi stað til að skreyta.  


Þá er minnt á ljósmyndasamkeppnina sem nú hefur fest sig í sessi.  Öllum er velkomið að taka þátt, eina skilyrðið er að þemað „Myrkrið“ njóti sín á myndunum sem sendar eru inn.  Veitt eru verðlaun uppá 50.000.- fyrir fyrsta sætið og Austurbrú áskilur sér rétt til að nota innsendar myndir til að kynna hátíðina.  Myndir skal senda inná netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og er síðasti skiladagur 1. nóvember nk

Íbúar Austurlands eru hvattir til að taka virkan þátt í Dögum myrkurs sem er okkar sameiginlega byggðahátíð. Lýsingar og tímasetningar á viðburðum má finna á heimasíðum sveitarfélaganna, Facebook og Instagram, undir Dagar myrkurs.  Allir sem hafa áhuga á að bjóða uppá viðburð geta haft samband við menningarfulltrúa í sínu sveitarfélagi/byggðarkjarna.

Mynd: Guðný Lára.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.