Orkumálinn 2024

Hefur komið í 43 sundlaugar á landinu

„Ég hef ekki náð að heimsækja allar sundlaugar á Austurlandi en það er framtíðarstefna að ná því markmiði,“ segir Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir listakona og jógakennari sem nú sýnir í Tankinum á Djúpavogi. Stendur sýningin, Molda, út júní.


Á Facebook síðu Arnbjargar kemur fram að hún hefur heimsótt 43 sundlaugar á landinu og vill helst ná að heimsækja þær allar.

„Það verður að vísu að fylgja með að ég kenni meðal annars svokallað hafjóga og sú kennsla fer yfirleitt fram í sundlaugum,“ segir Arnbjörg. „En allar sundlaugar hafa sinn sjarma.“

Arnbjörg segir að hún sé ekki ókunn á Djúpavogi og það sé alltaf skemmtilegt að koma þangað.

„Ég hef unnið áður í Tankinum meðal annars við hljóðupptökur,“ segir Arnbjörg. „Ég vildi nýta mér hljóminn sem er til staðar í salnum.“Umræddar upptökur voru á gong en það er hljóðfæri sem Arnbjörg hefur tekið ástfóstri við og spilaði raunar á við innsetningu Moldu um síðustu mánaðamót. Hún hefur einnig stofnað gong setur á Akureyri.

Um verkið sjálft segir m.a. í frétt á austurfrett.is að það sé unnið úr náttúrulegum íslenskum efnum sem féllu til á vordögum og þurrkuðum lótusfræhylkjum erlendis frá ásamt íslenskum bergkristal frá Steinasafni Auðuns.

Þá segir að í verkinu sé að finna rekavið úr hlöðuvegg í Eyjafirði sem upprunalega sé kominn frá Síberíu. Auk trjáróta frá Djúpavogi og Eyjafirði í vor.

Arnbjörg er fædd og uppalin í Skagarfirði og síðar Akureyri. „Ég hef alltaf búið fyrir norðan fyrir utan áratug er ég bjó í borginni í tengslum við vinnu mína sem jógakennari,“ segir Arnbjörg.
Hún var raunar stödd í Reykjavík er við náðum tali af henni við að útskrifa nemendur úr jógaskóla sínum. Sjálfur skólinn er hins vegar til heimilis á Akureyri.

„Þetta nám sem við vorum að útskrifa úr var unnið í samvinnu við jógakennara í Kanada. Hann er raunar staddur á Vancouver eyju,“ segir Arnbjörg.
Fram kemur í máli Arnbjargar að hún hafi lært til jógakennara bæði hér heima og erlendis. Stöðugt sé hægt að bæta við vitneskju sína á þessu sviði enda margar tegundir og útfærslur til af jóga og hvernig hægt er að nota það til hugleiðslu og slökunar.

„Ég er raunar á leið í nám aftur í sumar,“ segir Arnbjörg. Hún mun þó koma aftur til Djúpavogs í lok júní til að taka niður sýningu sína. Og kannski skella sér í sund í nágrenninu í leiðinni.

Mynd:  Arnbjörg Kristín kemur aftur á Djúpavog í lok mánaðarins. Mynd: Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.