Skip to main content

38 Heilborun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. maí 2008 00:05Uppfært 08. jan 2016 19:18

Samtök áhugafólks um jarðgöng á Mið-Austurlandi telur heilborun með risabor úr Kárahnjúkum raunhæfan kost til að vinna þau göng
sem vantar í fjórðungnum
Að fara yfir fjall eða undir

Seyðisfjörður | „Við erum mjög ósátt við að horft sé á jarðgangagerð sem sérstaka framkvæmd“ segir Guðrún Katrín Árnadóttir, upphafsmaður og formaður Samgöng, félags áhugafólks um jarðgangagerð á Mið-Austur-landi.
 „Jarðgöng eru bara vegagerð. Vegir eru gerðir um reginfjöll, hæstu tinda og illkleyfar heiðar og engum finnst það merkilegt. Um leið og fólki dettur í hug að fara í gegnum fjöll setur það sig í einhverjar stellingar. Allar rannsóknir hníga í þá átt að samgöngubætur og stytting vegalengda
 og þar með jarðgangagerð milli byggðarlaga, sé það sem styrki byggðirnar úti á landi og muni m.a. halda ungu fólki á stöðunum. Ungt fólk vill hreyfanleika og gott aðgengi að þjónustu.“

Risabor getur heilborað þau göng sem vantar eystra


Guðrún Katrín er búsett á Seyðisfirði. Hún beitti sér fyrir stofnun samtaka um jarðgöng á Mið-Austurlandi árið 2002 og hefur síðan unnið ötullega að þessu hugðarefni sínu, samhliða vinnu, fjárnámi á háskóla stigi og fjölskyldulífi á Seyðisfirði.
Samgöng er fyrst og fremst áhugasamtök og markmið þeirra að gera Mið-Austurland að einu atvinnu - þjónustusvæði og rjúfa vetrareinangrun með því að tengja byggðirnar saman:
Eskifjörð-Neskaupstað, Neskaupstað-Mjóafjörð, Seyðisfjörð og Hérað. Rúmlega  600 félagar eru í samtökunum víðsvegar af landinu.  Stjórn Samtakanna   hefur verið í sambandi við háskóla, þingmenn kjördæmisins, sveitarfélögin og fyrirtæki. Nú síðast veltu samtökin upp þeirri hugmynd að einn af risaborunum í Kárahnjúkavirkjun verði fenginn til að heilbora jarðgöng á Austurlandi, í stað þess að nota gamla lagið og sprengja þau. Guðrún Katrín segir slíkt geta orðið 30%- 40%  ódýrari framkvæmd en kostnaðarspá um sprengd göng geri ráð fyrir.
„Við erum í viðræðum við sveitarstjórnarmenn og ætlum að leggja meiri áherslu á hugsanlega nýtingu bors úr Kárahnjúkum, því að við höfum góðar heimildir fyrir því að vel sé hægt að nýta þá í þetta. Slíkir borar eru ekki einvörðungu nýttir í gerð lengri jarðganga, eins og samgönguráðherra sagði í svari sínu við fyrirspurn á Alþingi um þennan möguleika. Mér skilst jafnframt að ekki sé mikið mál að flytja þessa bora á milli staða. Ég efa ekki að samgönguráðherra hafi svarað fyrirspurninni eftir bestu vitund, en það sem kom fram í svari hans er ekki í samræmi við mínar upplýsingar. Það sem hann sagði um þær vegalengdir sem bor af þessu tagi getur unnið stenst engan veginn skv. mínum heimildum. Bor af þessu tagi borar að lágmarki 10 km árlega og allt að 19 km.“

Vantar að sveitarstjórnarmenn
leggist á árarnar
Byggðastofnun samþykkti í lok árs 2003 að fara í úttekt á jarðgangakostum á Mið-Austurlandi, í samvinnu við Vegagerðina og Háskólann á Akureyri. Um sama leyti samþykkti samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi ályktun um að láta gera alhliða úttekt á jarðgangakostum á Austurlandi í heild sinni og sú ályktun var samþykkt af aðalfundi SSA sl. haust. Guðrún Katrín segir að þrátt fyrir þetta hafi mál lítið þokast. „Það stendur allt fast og ég er helst á því að Byggðastofnun hræðist að farið verði að vagga einhverri skútu sem geti orðið óþægileg.
Vegagerð Ríkisins gaf út skýrslu  um jarðgangakosti á Austurlandi  1993 unna af helstu sérfræðingum hennar á þeim tíma.Í þeirri skýrslu er   hugmyndin um T-göng (Seyðisfjörður--Neskaupstaður-Mjóifjörður-Hérað)  sett í forgang í jarðgangagerð á landsvísu. Þingmenn okkar eru sömuleiðis allir jákvæðir, en manni finnst að þeir mættu ýta aðeins betur við þessu. Þá verða sveitarstjórnarmenn á Austurlandi að ræða þessa hluti saman af fullri alvöru og þá fyrst og fremst í Fjarðabyggð, á Egilsstöðum og Seyðisfirði. Ég held hreinlega að menn geri sér ekki grein fyrir þeirri byggðaþróun sem á eftir að eiga sér stað ef þessi göng koma ekki. Hún getur orðið mjög alvarlega fyrir byggðir á Austurlandi. Hvernig vilja menn sjá Austurland eftir tíu ár? Hreppapólitík verður að útrýma og hætta að líta á hvern byggðakjarna fyrir sig, heldur skoða Austurland í heild sinni. Það er mikið átak að fá álverksmiðju á Reyðarfjörð, en verkið er
aðeins hálfnað. Álverið á að hjálpa byggðunum og auka atvinnutækifæri, en ef fer sem horfir mun stóriðjan renna stoðum undir nokkra byggðakjarna á Mið-Austurlandi á kostnað annarra. Nú er lag að bæta
um betur og skoða heilborun sem raunhæfan kost. Það verður þó að gerast á næstu árum, eða áður en risaborarnir verða fluttir úr landi.“

Í stjórn Samgöng sitja nú, auk Guðrúnar Katrínar, Kristinn V.
 Jóhannsson, Sveinn Jónsson, Jónas Hallgrímsson, Jörundur Ragnarsson, Sigfús Vilhjálmsson og Sveinn Sigurbjarnarson.