Heimasíða Múlaþings orðin aðgengileg

Heimasíða hins nýstofnaða sveitarfélags Múlaþings er nú orðin aðgengileg almenningi. Henni er ætlað að leysa af hólmi heimasíður sveitarfélaganna sem sameinuðust inní sveitarfélagið.

Sveitarfélagið Múlaþing varð formlega til í byrjun október þegar sameining Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar gekk í gegn að loknum sveitastjórnarkosningum. Nafnið Múlaþing varð loks staðfest um miðja síðustu viku að loknum tveimur umræðum í sveitarstjórn.

Við að reyna að komast inn á mulathing.is síðustu vikur hafa komið skilaboð um að þar væri vefur í vinnslu. Í morgun kvað við nýjan tón þegar síða nýs sveitarfélags kom upp á skjáinn. Á forsíðu koma þó upp skilaboð um að um sé að ræða beta-vef sem sé enn í vinnslu. Stefna hefur séð um hönnun vefsins.

Þar má finna upplýsingar um næstu viðburði en ljóst er að töluvert á eftir að setja inn á hann af gögnum, meðal annars vantar fundargerðir beggja funda nýju sveitarstjórnarinnar.

Þar má meðal annars lesa um að gengið hafi verið frá ráðningum tveggja starfsmanna inn á framkvæmda- og umhverfissvið. Annars vegar hefur Úlfar Trausti Þórðarson verið ráðinn sem byggingafulltrúi en hann var áður skipulags- og byggingafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Þá kemur María Markúsdóttir til starfa sem skipulagsfulltrúi 1. desember. Hún er að ljúka meistaragráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands en hefur síðustu misseri starfað sem stundakennari við Háskólann á Akureyri.

Undirbúningur að gerð heimasíðunnar hefur staðið í nokkurn tíma en samkvæmt skráningakerfi Isnic var lénið skráð fyrst skráð þann 28. janúar síðastliðinn. Athugun Austurfréttar sýnir að fleiri lén hafi þann dag verið skráð á verkefnisstjóra sameiningarinnar, svo sem mulathingha.is og austurbyggd.is. Lénið drekabyggd.is var ekki skráð fyrr en í mars. Öll þessi nöfn komu til greina við val á nafni á nýja sveitarfélagið. Engar síður eru þó aðgengilegar á bakvið lénin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.