Heimastjórn þakkar öllum frábærlega vel unnin störf

Heimastjórn Seyðisfjarðar þakkar öllum þeim fjölmörgu sem komið hafa að björgunarstörfum á Seyðisfirði fyrir frábærlega vel unnin störf.

Þetta kemur fram í fundargerð af fundi heimastjórnarinnar í gærmorgun. Þar segir einnig að heimastjórn lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með það hversu vel hreinsunarstörf hafa gengið og hversu gott skipulag hefur verið á málum af hálfu Múlaþings.

„Vinnubrögð þeirra sem hafa komið hér að málum varðandi tryggingar og almannaþjónustu hafa verið einstaklega vel unnin sem ber sérstaklega að þakka,“ segir í fundargerðinni.

Um er að ræða fyrsta fund heimastjórnarinnar eftir að aurskriðurnar féllu á Seyðisfjörð. Umræðan á fundinum snérist því að miklu leyti um þá atburði.

Eins og fram hefur komið vill heimastjórnin rannsókn á rýmingunum eftir að skriðurnar voru byrjaðar að falla. Einnig kemur m.a. fram í fundargerðinnii hraðar hendur verði hafðar með að skipa í stýrihóp sem hefur það hlutverk að greina stöðu húsnæðismála og alla uppbyggingu á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna.

Þá segir að heimastjórn leggur þunga áherslu á áframhaldandi þjónustu við bæjarbúa er varðar áfallahjálp og beinir því til Félagsþjónustu Múlaþings að tryggja að svo verði.

„Slík þjónusta verður að vera til staðar næstu mánuði og því mikilvægt að hún verði veitt áfram á Seyðisfirði og einnig hugað vel að einstökum hópum. Mikilvægt er að í boði verði sérstakt námskeið í áfallahjálp fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla til að greina áfallaeinkenni barna,“ segir í fundargerðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.