Heita góðu samstarfi við Seyðfirðinga

Framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða segir fyrirtækið vonast eftir góðu samstarfi við íbúa Seyðisfjarðar um fyrirhugað eldi fyrirtækisins í firðinum. Íbúar hafa hrundið af stað undirskrifasöfnun til að mótmæla eldinu.

„Lög um umhverfismat gera ráð fyrir að almenningur geti gert athugasemdir við frummatsskýrslu. Við munum bregðast við öllum athugasemdum sem berast. Við munum jafnframt leitast við að hafa gott samstarf við íbúa Seyðisfjarðar og fyrirsvarsmenn sveitarfélagsins,“ segir Þórður Þórðarson, framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða.

Skipulagsstofnun auglýsti í byrjun vikunnar frummatsskýrslu um fyrirhugað eldi fyrirtækisins í Seyðisfirði til kynningar og umsagnar. Þar áformar fyrirtækið að ala allt að tíu þúsund tonn að laxi í fjórum kvíum.

Íbúar mótmæla

Íbúar á Seyðisfirði hafa brugðist hart við áformum fyrirtækisins nú og hrundið af stað undirskriftasöfnun til að leggjast gegn eldinu. Í samtali við Austurfrétt í morgun sagði Þóra Guðmundsdóttir, einn forsprakka söfnunarinnar, að eldisáformin kæmu bæjarbúum á óvart og svo virtist sem fyrirtækið ætlaði sér að hafa sem minnst samráð við íbúa og fulltrúa þeirra um skipulag.

Benti hún á að fyrirtækið teldi eldið ekki falla undir lögum um skipulag haf- og strandsvæða, sem tóku gildi sumrið 2018, þar sem umsóknarferlið hefði hafist löngu áður en lögin gengu í gildi. Í greinargerð umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með lögunum, kemur fram að þau séu ekki eftirvirkt. Segir Þórður að þetta sé því ekki skoðun fyrirtækisins heldur gildissvið laganna.

Leyfi í gildi

Í tilkynningu sem Fiskeldi Austfjarða er aðdragandi að fyrirhugðu eldi í Seyðisfirði rakinn aftur til ársins 2002 þegar Hafrannsóknastofnun réðist í umfangsmiklar rannsóknir fyrir fyrirtækið Arnarlax. Þá hafi Seyðisfjörður verið skilgreindur sem mögulegt eldissvæði af íslenska ríkinu frá 2004.

Ekkert varð af eldinu þá en gefin voru út starfsleyfi fyrir fiskeldi á þremur stöðum, undir Háubökkum, við Selstaðavík og Sörlastaðavík í nóvember 2012 fyrir allt að 200 tonna leyfum. Fiskeldi Austfjarða eignaðist leyfin við Háubakka og í Sörlastaðavík vorið 2015 en þau gilda til ársins 2026. Í tilkynningunni segir að fyrirtæið hafi áformað að hefja eldi í firðinum síðan það eignaðist leyfi.

Segja ferlið hafa verið opið og gagnsætt

Ferli við mat á umhverfisáhrifum þess eldis sem nú er til kynningar hófst sumarið 2014 þegar drög að matsáætlun voru kynnt opinberlega. Tillaga að matsáætlun var síðan opinberuð tveimur árum síðar og veitti Skipulagsstofnun álit sitt á henni snemma árs 2017.

„Forsaga þessa máls er því löng og hefur ítrekað verið haft samband við forvígismenn bæjarfélagsins og þeim sent umbeðin gögn væri þess óskað. Ferlið hefur verið opið og gegnsætt og öllum mátt vera ljóst hvað fyrir dyrum stendur. Gerð hefur verið greining á siglingum um fjörðinn og tekið tillit til þeirra við ákvörðun eldissvæða,“ er haft eftir Þórði í tilkynningunni. Þá er fyrirhugað að í næstu viku verði auglýstur kynningarfundur um eldisáformin fyrir íbúa Seyðisfjarðar.

Störf og fjárfestingar

Í tilkynningunni er bent á að umsóknin nú sé innan þeirra marka sem dregin hafi verið eftir rannsóknir á burðarþoli fjarðarins og áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Því stafi umhverfinu ekki hætta af eldinu og öll áhrif séu afturkræf. Þá er bent á að fyrirtækið sé með tvær vottanir um lífræna framleiðslu og hún sé því bæði lyfja- og efnalaus.

Þá er vakin athygli á ætlað sé að 250 heilsársstörf skapist við eldið þegar það verði komið í fullan rekstur. Mörg þeirra verði í Seyðisfirði og langflest innan sveitarfélagsins Múlaþings því fiskurinn verði unninn þar, verkaður og loks siglt á markað með Norrænu. Sveitarfélagið muni því hafa miklar tekjur af rekstrinum en heildarfjárfesting framkvæmdarinnar er áætluð um tíu milljarðar króna. Þá sé ótalið auðlindagjald sem greiðist í Fiskeldissjóð sem ætlaður er í uppbyggingu í nágrenni við eldissvæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.