Orkumálinn 2024

Hellisheiðin einn erfiðasti leggurinn í dreifikerfi Landsnets

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í síðustu viku starfsmenn Landsnets til viðgerða á Vopnafjarðarlínu 1, sem liggur frá Lagarfossvirkjun til Vopnafjarðar. Áður höfðu línumennirnir horft á snjóflóð falla skammt frá sér þegar þeir voru á leið til bilanaleitar. Verkstjóri segir aðstæður á línuleiðinni afar erfiðar. Til stendur að leggja línuna í jörð í sumar.

„Línan bilaði aðfaranótt sunnudags. Fyrst vissum við ekki meira, svo töldum við okkur komna með staðsetningu á bilunina á Hellisheiði.

Það kom okkur ekki á óvart því þar er einn erfiðasti línuleggurinn í flutningskerfi Landsnets. Línan hækkar þar nánast frá sjávarborði í ríflega 600 metra hæð. Þetta þýðir að aðkoman að línunni er erfið ef hún bilar, við þurfum að koma tækjum þessa leið.

Til þess þurfum við að ryðja okkur leið fyrst upp heiðna og svo út línuveginn sem er skorinn utan í brekku. Á þessari leið sinni fer línan í gegnum dali þar sem er snjóflóðahætta og erfiður yfirferðar.“

Þannig lýsir Ragnar Bjarni Jónsson, verkstjóri hjá Landsneti, aðstæðum á Hellisheiði eystri. Vopnafjarðarlína bilaði aðfaranótt sunnudagsins í síðustu viku og ekki var hægt að ljúka viðgerð fyrr seinni part miðvikudags. Á meðan var varaafl keyrt á Vopnafirði.

Horfðu á snjóflóðið fara hjá

Þegar búið var að staðsetja bilunina gróflega fór flokkur Landsnets frá Egilsstöðum til að kanna nánari staðsetningu og mögulega viðgerð. Fjórir menn fóru með þrjá snjósleða og var ákveðið að fara upp frá Böðvarsdal því áhyggjur voru um að snjóalög væru ótraust á heiðinni.

Einn maður fór upp í senn upp seinasta hjallann. Sá fyrsti komst klakklaust upp en þegar sá annar lagði af stað fór snjóflóð af stað. „Það fór öll brekkan af stað, um 300 metra breið skel,“ segir Ragnar Bjarni en línumennirnir eru útbúnir með snjóflóðaýlur auk þess sem alltaf er einn á öruggu svæði til að kalla eftir aðstoð. Í þessu tilfelli komst sá sem var á ferðinni upp og flóðið fór framhjá þeim sem beið eftir að fara upp ásinn.

Strax hugsað til þyrlunnar

Þegar komið var upp á topp sást að bilunin var ekki alvarleg, það er ekki þurfti stórvirkar vinnuvélar til að gera við hana, en eftir var að finna hvernig viðgerðarflokki yrði komið á svæðið. Þetta var reyndar ekki eina verkefni flokksins því byggðalínan fór í sundur vegna aurskriðu austan Hafnar í Hornafirði á sunnudagskvöld og fór flokkur frá Egilsstöðum á staðinn til að leita bilunarinnar. Viðgerðarflokkur kom síðan úr Reykjavík.

Á sunnudag og fram eftir mánudegi var snjóflóðahætta um svo að segja allt Austurland. Því var strax farið að ræða möguleikann á að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja viðgerðarflokkinn upp á heiðina.

Varaafl í á fjórða sólarhring

Á mánudegi þurfti þyrlan í útkall og einkaaðilar treystu sér ekki í verkið vegna erfiðra aðstæðna. Ragnar segir hafa verið skoðað að fara upp með sleðum en snjórinn talinn of ótraustur enn. Á þriðjudeginum var lágskýjað og vont veður. Aðgerðirnar frestuðust því fram til miðvikudags. Þyrlan kom þá austur, sótti viðgerðarflokkinn flutti hann upp á heiðina, stakk nefinu niður í snjóinn meðan línumennirnir stukku upp og náði svo aftur í þá að viðgerð lokinni. Vopnfirðingar voru því tengdir við meginflutningskerfið á ný seinni part miðvikudags. Ríflega 3,5 sólarhringar voru þá liðnir frá því bilunin kom upp.

Línan er hin eina sem flytur rafmagn til Vopnafjarðar og er raforkusamband staðarins því eðlilega viðkvæmt. Ragnar Bjarni segir bilanir ekki hafa verið tíðar síðustu ár en þó hafi veturinn 2014 verið erfiður. Það er gott því utan þess sem erfitt er að komast á staðinn eru aðstæður til athafna við línuna oft erfiðar vegna veðurs. Á svæðinu eru talsverðar líkur á ísingu. Þetta stendur þó til bóta því ráðgert er að koma línunni í jörð á þeim 10 km kafla sem aðstæður eru erfiðastar á árinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.