Helstu tíðindi af loðnuveiði á einum stað

Nýjum vef, með nýjustu og mikilvægustu tölum af loðnuveiði, hefur verið settur í loftið. Er þar bæði hægt að sjá upplýsingar um landanir og áætlað aflaverðmæti.

„Hér á árum áður var reglulega sagt í lok fréttatíma ríkisútvarpsins: „nú verða fluttar loðnufréttir“. Síðan er nýmóðinslausn þannig ekki þurfi að lesa upp aflatölur hvers og eins skips daglega,“ segir Ingvi Þór Georgsson frá Egilsstöðum, einn þeirra sem standa á bakvið lodnufrettir.is

Vefurinn var opnaður í byrjun loðnuvertíðarinnar í síðasta mánuði og hefur umferð um hann vaxið jafnt og þétt. Vefurinn sækir gögn til Fiskistofu daglega. Þar er að finna upplýsingar um einstakar landanir, heildarmagn skipa, stöðu heildarveiðanna og áætlað aflaverðmæti.

„Við finnum að notendur okkar hafa mikinn áhuga á að rýna í hvernig verðmætin verða til. Með að fylgja eftir löndunum, nýtingu aflans og bera saman við heimsmarkaðsverð á mjöli, lýsi, og öðrum afurðum er hægt að slá upp til gamans hvernig gengur. Að sjálfsögðu eru öll verð í þessu ekki búin að raungerast svo við styðjumst við tölur sem nefndar hafa verið í kynningum fyrirtækja fyrir vertíðina,“ útskýrir Ingvi.

Vefurinn er samstarfsverkefni miðlunar- og ráðgjafafyrirtækisins Aflamiðlunar og nýsköpunarverkefnisins Aflarans, sem innan skamms opnar þjónustu með afladagbækur. Tíðindi um stóra loðnuvertíð í vændum varð hvati til að skella vefnum í lofið.

„Það stefnir í eina stærstu loðnuvertíð í 20 ár og því ákváðum við að setja upp síðu þar sem hægt væri að fylgjast með ævintýralegum aflabrögðum í íslenskri landhelgi.“

Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.