Líneik Anna: Hlakka til að starfa í þrettán manna þingflokki

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segir stærri þingflokk hjálpa verulega vinnunni á þinginu. Hún telur eðlilegt að sóst verði eftir það einn ráðherra flokksins úr nýrri ríkisstjórn komi úr kjördæminu.

„Ég er hæstánægð með niðurstöðuna og bæði þakklát og stolt af Framsóknarfólki um kjördæmið sem lagði allt i verkefnið,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi.

Flokkurinn fékk 13 þingmenn kjörna um helgina og bætti við sig fimm á landsvísu. Í Norðausturkjördæmi bætti flokkurinn við sig ríflega 10 prósentustigum í fylgi og þingmanni, fór úr tveimur í þrjá.

Fann að fólk vildi sömu ríkisstjórn

Líneik Anna kveðst hlakka til að vera hluti af þessum stóra þingflokki sem hún segir að efli verulega vinnu flokksins. Hún er ekki ókunnug því þar sem flokkurinn fékk 19 þingmenn kjörna 2013.

„Það er ekki hægt að líkja því saman hvernig er að sinna verkefnunum í stærri eða minni þingflokki. Vinnan í þinginu verður allt önnur og betra að vinna að áherslumálunum.“

Kannanir höfðu gefið til kynna að gott væri í vændum fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi og það skynjuðu frambjóðendur flokksins í kosningabaráttunni.

„Við höfðum skynjað að það væri raunhæft að ná þremur þingmönnum, en alls ekki öruggt. Við fundum að margir voru óákveðnir en líka að fólk vildi sömu ríkisstjórn áfram.“

Ljóst að kjósendur vilja ráðherra í kjördæmið

Vegna góðs árangurs Framsóknarflokksins bætti ríkisstjórnin við sig þingmönnum. Útlit er fyrir að flokkarnir þrír í henni byrji á að ræða saman. Þingflokkur Framsóknarflokksins kemur saman til fundar síðar í dag til að móta áherslurnar í stjórnarmyndunarviðræðum.

„Ég gef mér að þessir flokkar byrji á að ræða saman, annars er lítið hægt að segja um ríkisstjórn. Þingflokkarnir hittast til að draga saman sínar áherslur og verkefni. Síðan fara formennirnir áfram með þau skilaboð.“

Í samtali við Akureyri.net í gær sagði Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins, að það væri eðlileg krafa að sækjast eftir ráðherraembætti í ljósi góðs árangurs. Það væri ekki bara krafa úr flokknum heldur kjördæminu almennt sem hún hafi skynjað í kosningabaráttunni. Einn ráðherra úr fráfarandi ríkisstjórn kom úr kjördæminu, Kristján Þór Júlíusson úr Sjálfstæðisflokki. Hann er hættur. Líneik Anna tekur undir þessa kröfu Ingibjargar. „Það er ljóst að fólk vill ráðherra í kjördæmið.“

Samgöngumálin sameina og sundra

Aðspurð um ástæður árangursins þakkaði Líneik Anna það samheldnum hópum. „Ég þakka þetta vinnunni á kjörtímabilinu. Í framboði var góður hópur, ekki bara við þrjú efstu heldur lögðu allir 20 á listanum sitt af mörkum. Við fórum af stað aðeins í júní, bæði til að finna taktinn okkar á milli en við þurftum líka að fara snemma af stað til að komast yfir alla byggðakjarnana.

Félagstarfið hefur líka jafnað sig eftir klofninginn 2016. Sumir hafa komið aftur en líka mikið af nýju fólki.“

Aðspurð segir hún að sömu málin hafi brunnið á fólki milli svæða innan kjördæmisins, þó með blæbrigðamun. „Grundvallarmálin eru þau sömu. Samgöngumál eru stóra verkefnið í kjördæminu, það sem bæði sameinar og sumar. Á Austurlandi er áberandi að fólk vantar til vinnu, reyndar er það þannig víðast í kjördæminu. Það tengist aftur húsnæðismálunum, eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar er víða verið að byggja en það húsnæði er ekki komið í gagnið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.