Innflytjendur tæp 17% íbúa á Austurlandi
Hlutfall innflytjenda af íbúum er tæp 17% á Austurlandi. Er þetta hæsta hlutfall þeirra á landinu fyrir utan suðvesturhorn landsins.Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Þar segir að langhæsta hlutfall innflytjenda af íbúum á landinu sé á Suðurnesjum eða 28% og í höfuðborginni er hlutfallið um 17%.
Lægsta hlutfall innflytjenda er á Norðurlandi vestra eða um 9%. Næst á eftir kemur Norðurland eystra með um 10%, Vestfirðir eru með tæp 15% og Suðurland með tæp 16%.
Í heildina eru innflytjendur rúmlega 15% landsmanna og hafa aldrei verið fleiri hlutfallslega. Hefur innflytjendum fjölgað stöðugt frá árinu 2012 þegar þeir voru 8% landsmanna.
Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 20.477 einstaklingar frá Póllandi eða 37% allra innflytjenda. Þar á eftir koma einstaklingar frá Litháen sem eru 5,9% og fólk frá Filippseyjum sem er 3,8%, að því er segir í tölum Hagstofunnar.
Frá þjóðahátið á Vopnafirði. Mynd úr safni.