Hluturinn í Fiskeldi Austfjarða metinn á 20 milljarða

Norska laxeldisfélagið Måsöval eignaðist nýlega 55,6% hlut í Fiskeldi Austfjarða. Á vefsíðunni laks.no segir að andvirði þessa hlutar sé metið á rúmlega 1,3 milljarða nkr. eða um 20 milljarða kr. Samkvæmt því er verðmatið á Fiskeldi Austfjarða í heild um 38 milljarðar kr.

Ekkert reiðufé skipti um hendur þegar Måsöval eignaðist hlutinn í Fiskeldi Austfjarða heldur var þetta niðurstaða af nokkuð flóknum eignaskiptum milli þriggja félaga sem skráð eru á hlutabréfamarkaðinum norska. Auk Måsöval voru þetta NTS og Norway Royal Salmon (NRS).

Forsaga málsins er sú að framan af árinu voru NTS og NRS í viðræðum um að sameina félögin. Í haust varð svo ljóst að ekki yrði af þeirri sameiningu og þá fóru eignaskiptin í gang með tilkomu Måsöval sem átti stórann hlut í NRS.

Í einföldu máli gerist það að NTS, í gegnum dótturfélag sitt, selur Måsöval eignarhlut sinn í Fiskeldi Austfjarða. Måsöval borgar svo fyrir með eignarhlut sínum í NRS. Vangaveltur eru um að með þessum kaupum sé NTS að reyna að ná nægilega miklum eignahlut til að skapa sér yfirtökuskyldu á öllu hlutafé í NRS.

Á vefsíðunni laks.no kemur einnig fram að kaupverð Måsöval á Fiskeldi Austfjarða sé að hluta bundið við árangur þess í framtíðinni. Þannig þarf Måsöval að borga 150 milljónum nkr. eða 225 milljónum kr. meira fyrir hlutinn ef Fiskeldi Austfjarða nær 24.000 tonna framleiðslu fyrir árslok 2022.

Þess má einnig geta að NTS er eigandi íslenska fiskeldisfélagsins Arctic Fish á Vestfjörðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.