Hlýjasti júlímánuður sem mælst hefur á Dalatanga
Meðalhiti hefur aldrei mælst hærri í júlí á Dalatanga í sögu 80 ára veðurmælinga þar heldur en í nýafstöðnum mánuði. Hæsti meðalhiti á landinu var á Hallormsstað.
Meðalhitinn í júlí á Dalatanga var 10,2 gráður og er það hlýjasti júlímánuður sem mælst hefur í 80 ára sögu mælinga þar að því fram kemur í yfirliti Veðurstofu Íslands.
Hlýtt var á fleiri stöðum eystra, á Teigarhorni í Berufirði var meðalhitinn 10,4 gráður sem gerir mánuðinn þann fimmta heitasta í 146 ára sögu mælinga og 11,9 gráður á Egilsstöðum sem skilar mánuðinum í áttunda sætið í 64 ára sögu.
Í yfirlitinu kemur fram að hæsta jákvæða hitafrávik miðað við síðustu tíu ár hafi verið á Fjarðarheiði, 1,6 stig.
Hæsti meðalhiti mánaðarins var á Hallormsstað 12,1 gráða.
Mesti hiti á landinu mældist hins vegar á Patreksfirði á sunnudaginn var, 24,7 gráður. Það er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ár. Í yfirlitinu segir að þann dag hafi gengið hitabylgja yfir landið sem sé sú útbreiddasta frá hitabylgju í lok júlí 2008.