Hörð mótmæli nítján sveitarfélaga lent á borði innviðaráðherra
Áskorun nítján fámennra sveitarfélaga þess efnis að dregin verði til baka tillaga innviðaráðuneytisins um að öll sveitarfélög með færri en 250 íbúa skuli sameinast öðrum og það á allra næstu mánuðum barst á borð ráðherra í gærdag.
Það staðfestir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, sem er eitt þeirra nítján sveitarfélaga sem sameiginlega skrifa undir áskorunina og sá eini á Austurlandi með færri en 250 íbúa. Það gerir jafnframt oddviti Vopnafjarðarhrepps en öll eru sveitarfélögin nítján með innan við þúsund íbúa. Frumvarp ráðherrans gerir nefninlega ráð fyrir að í fyrstu atrennu verði allra fámennustu sveitarfélögin sameinuð öðrum stærri en svo verði áfram haldið með sveitarfélög með færri en þúsund íbúa í kjölfarið.
Eins og Austurfrétt greindi frá í lok síðasta mánaðar kom frumvarp innviðaráðherra mörgum á óvart. Þó lengi hafi stjórnvöld ýtt undir sameiningar smærri sveitarfélaga landsins hefur ráðherra sveitarstjórnarmála aldrei haft endanlegt vald sjálfur til að ákveða slíkt eins og hið nýja frumvarp kveður á um. Ekki síður er fyrirvarinn í frumvarpinu lítill sem enginn því helst skal ljúka slíkum sameiningum eigi síðar en í maímánuði þegar sveitarstjórnarkosningar fara í hönd.
Helgasti réttur sveitarstjórnarstigsins afnumin
Áskorun sveitarfélaganna nítján er harðorð vegna frumvarpsins en hún er í heild sinni svohljóðandi:
„Sameiginlegur fundur sveitarfélaga með íbúa færri en 1.000 skorar á innviðaráðherra að draga til baka tillögu innviðaráðuneytis um afnám íbúalýðræðis sem felast í drögum að nýjum sveitarstjórnarlögum sem nú liggja fyrir samráðsgátt stjórnvalda.
Sveitarfélögin fordæma þá vegferð stjórnvalda að svipta íbúa fámennustu sveitarfélaga landsins réttinum til að taka ákvörðun um tilvist sveitarfélags síns með því að fyrirskipa sameiningar. Með þessu er helgasti réttur sveitarstjórnarstigsins, íbúalýðræðið, afnuminn og valtað yfir ákvörðunarvald sveitarfélaga, ekki aðeins hinna minnstu, heldur einnig þeirra sveitarfélaga sem þeim verður uppálagt að sameinast. Verði ráðherra veitt vald til þess að hlutast til um sameiningu sveitarfélaga með þessum hætti er gerður að engu sá réttur íbúa til þess að kjósa sér fulltrúa til þess að fara með umboð og málefni viðkomandi sveitarfélags. Um er að ræða skref sem grefur undan lýðræði og hlutverki kjörinna fulltrúa.
Sveitarfélögin sem að þessari áskorun standa mótmæla harðlega þessum frumvarpsdrögum þar sem þau svipta sveitarfélög sjálfsákvörðunarrétti sínum og íbúa lýðræðislegum réttindum.
Frumvarpið sýnir mikla óvirðingu við íbúa minni sveitarfélaga og óþolinmæði gagnvart þróun sem er í gangi. En nokkur af fámennustu sveitarfélögunum hafa þegar sameinast eða samþykkt sameiningu, s.s. Akrahreppur, Skagahreppur, Svalbarðshreppur og Skorradalshreppur. Önnur eiga í viðræðum á misjöfnu stigi og getur frumvarpið haft afar neikvæð áhrif á anda þeirra viðræðna og mögulegra sameininga.“