Hörð mótmæli veiðifélaga vegna laxeldis í Seyðisfirði

„Stjórnir Veiðifélaga Hofsár og Sunnudalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði mótmæla harðlega áformum Fiskeldis Austfjarða um 10.000 tonna laxeldi, sem áætlað er að innihaldi 6500 tonn af ógeldum norskum eldislaxi, í opnum sjókvíum í Seyðifirði.“

Þetta kemur fram í ályktun sem forráðamenn fyrrgreindra veiðifélaga hafa sent frá sér. Þar segir m.a.
að nálægð fyrirhugaðra laxeldisstöðva við laxveiðiár á Austurlandi er verulegt áhyggjuefni en austfirskar ár með sínum einstöku villtu laxastofnum eru inngrónar í náttúru og menningu fjórðungsins og rómaðar fyrir fegurð og gæði.

„Laxeldi í opnum sjókvíum ógnar tilvist villtra laxastofna vegna erfðablöndunar og veldur mengun og óafturkræfum skaða. Veiðifélögin benda á að laxfiskar hafa sloppið í umtalsverðum mæli úr opnum sjókvíum hérlendis og hafa gengið upp í ár fjarri uppelsistöðvum sínum.“ segir í ályktunni.

„Þá er mengun af opnu sjókvíaeldi mikil vegna úrgangs og lyfjaleifa sem hafa skaðvænleg áhrif á sjávardýr og fuglalíf. Ofangreind veiðifélög ítreka mikilvægi þess að stjórnvöld og sveitastjórnir standi vörð um náttúruna.“

Ennfremur hvetja félögin sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra- og umhverfisráðherra Íslands og sveitarstjórn Múlaþings til að láta sig málið varða og beita sér gegn fyrirhuguðum eldisáformum um opið sjókvíaeldi í Seyðisfirði.



„Þá krefjumst við þess að skorið verði úr um, með óyggjandi hætti, hverjir beri ábyrgð á yfirvofandi umhverfistjóni og hvernig áformað verði að mæta því, ef til þess kemur. Því miður eru allt of mörg dæmi um slysasleppingar og ófullnægjanlegt náttúruheilbrigði í nálægð við laxeldi í opnum kvíum,“ segir einnig í ályktuninni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.