Hótel Hallormsstaður er sóttkvíarhótel Austurlands

Hótel Hallormsstaður verður sóttkvíarhótel Austurlands. Þráinn Lárusson eigandi hótelsins segir að hann hafi orðið við óskum Sjúkratrygginga Íslands að láta hótelið í té undir þetta hlutverk.


„Þetta hótel stendur nú ónotað vegna COVID þannig að það var sjálfsagt af minni hálfu að láta þeim það í té,“ segir Þráinn. „Þá ber að líta á að þetta er stærsta hótelið í fjórðungnum og því tilbúið að taka við fjölda einstaklinga ef svo ber undir.“

Allar líkur eru á að fyrstu einstaklingarnir komi á Hótel Hallormsstað á morgun úr Norrænu. Ferjan átti að leggja að bryggju á Seyðisfirði í dag en för hennar frestaðist vegna veðurs um sólarhring að því er segir á vefsíðu ruv.is.

Þráinn segir að rekstur hótelsins sem sóttkvíarhótels sé alfarið á vegum Rauða krossins og Securitas.

„Ég mun hinsvegar leggja til hótelstjóra sem verður tengiliður við Rauða krossinn á hótelinu og einnig starfsfólk til að sjá um þrif á herbergjum eftir notkun,“ segir Þráinn.

Aðspurður um hvort starfsfólk hans sé í aukinni hættu við vinnu á staðnum segir hann svo alls ekki vera.

„Ef sýking kemur upp kemur mitt starfsfólk ekki nálægt slíku. Þá verða það einhverjir sérfræðingar að sunnan sem annast þrifin,“ segir Þráinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.