Orkumálinn 2024

Hræðsla við hnúðlaxinn

Mikil aukning varð í veiði á hnúðlaxi í ám á Norðausturhorni landsins. Framkvæmdastjóri Six Rivers verkefnisins segir upplýsingar vanta um áhrif hnúðlaxins á umhverfi sitt.

„Ég held við höfum fyrst séð hnúðlax í Selá fyrir tuttugu árum og samanlagt 3-4 á þessum tíma þar til við veiddum 30 í Miðfjarðará í Bakkafirði nú í sumar,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers.

Six Rivers, sem Jim Ratcliffe stendur að baki, stóð fyrir ráðstefnu um Norður-Atlantshafslaxinn í vikunni. Meðal frummælenda á ráðstefnunni voru finnskir vísindamenn sem sögðu að fyrst hefðu sést fáeinir laxar í ám þar, nokkrum árum síðar tugir, svo hundurð og loks þúsund.

Að mati Gísla er verst hve lítið er vitað um áhrif hnúðlaxins á umhverfið. „Við vitum eitthvað en samt vitum við lítið. Hann er aðskotahlutur í okkar náttúru og klárlega ekki góður en við vitum ekki hvort hann er stórhættulegur eða bara óþægilegur. Við getum engar ályktanir dregið af gögnunum sem við höfum, en við erum hræddir.“

Hnúðlaxinn á uppruna sinn í Kyrrahafi en þeir fiskar sem veiðast hér eru trúlega komnir frá Rússlandi í gegnum Skandinavíu. Þar í landi lifir hann í ám eftir að hafa verið ræktaður upp. Í sumar hefur verið tilkynnt um hnúðlax víða um land, meðal annars úr Norðfjarðará, Stöðvará og Fjarðará í Loðmundarfirði.

Hann er minni en Atlantshafslaxinn, sem er eini stofninn sem hrygnir í íslensku ánum að staðaldri en hnúðlaxinn hrygnir bæði neðar í ám og fyrr. Ekki er talin hætt á að stofnarnir blandist en óttast er að hnúðlaxinn taki yfir búsetusvæði frænda síns í íslenskum ám.

„Hnúðlaxinn kemur hingað á tveggja ára fresti þannig við höfum tvö ár fram að næstu göngu. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir veiðifélögin,“ segir Gísli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.