Skip to main content

Hreinsunarstarf hafið á Stöðvarfirði en erfitt um vik

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2025 11:09Uppfært 07. feb 2025 11:57

Hreinsunarstarf hófst á Stöðvarfirði snemma í morgun en þar leggja fjölmargir starfsmenn Fjarðabyggðar hönd á plóg fyrir utan þorpsbúa sjálfa. Þar er 5 til 10 sentimetra jafnfallinn snjór sem tefur hreinsunarstarfið en aðeins hefur stytt upp nú þegar dregur að hádegi.

Í fjölmörg horn er að líta fyrir hreinsunaraðila í þorpinu en hvergi austanlands olli óveðrið síðasta sólarhringinn meiri skemmdum og tjóni en á Stöðvarfirði.

Svo slæm varð staðan að á miðnætti í fyrrinótt sá bókstaflega vart milli húsa vegna sjóroks og barnings. Þakplötur fuku af tugum húsa, skúrar og gróðurhús fóru á haf út og rúður brotnuðu allvíða.

Ótrúlegir vatnavextir

Innri-Einarsstaðaáin, sem fellur gegnum þorpið, breyttist úr góðum læk í stórfljót sem gróf duglega í bakka árinnar og jafnframt ofan af vatnsleiðslu þorpsbúa enda fylgdi óveðrinu töluverð hlýindi og vatnavextir. Fyrir neðan veginn við Ytri-Einarsstaðaá náði vatnið heilum metra upp að röð trjáa sem þar standa.

Minnst eitt hús á staðnum er svo illa farið að tæpt er hvort það sé íbúðarhæft og svo virðist sem þök húsa við Skólabraut hafi orðið hvað verst úti í verstu hviðunum í gær. Snjókoman og aðrir þættir gera það þó erfitt að meta nákvæmt tjón á þökum eða trévirki húsanna í fljótu bragði. Fjölmörg tré brotnuðu í veðrinu og töluverðar skemmdir almennt í görðum þorpsins.

Við Heiðmörk fór allt þakið af bílskúr eins húss og lenti á og skemmdi þrjár bifreiðar sem stóðu þar fyrir neðan. Fleiri bifreiðar eru sagðar hafa skemmst en umfang þess ekki alveg ljóst á þessum tímapunkti.

Allir starfsmenn áhaldahúss þorpsins vinna baki brotnu og hafa fulltingi hafnarstarfsfólks Fjarðabyggðar. Íbúar sjálfir leggjast einnig á eitt.

Veðurstrengirnir komu úr öllum áttum

Heimamaður í bænum segir við Austurfrétt að stormurinn í gær hafi bókstaflega komið úr öllum hugsanlegum áttum þegar verst lét og íbúar sem búið hafa á Stöðvarfirði um áratugaskeið muna ekki eftir öðru eins.

Annar heimamaður lýsti því þegar stór skúta valt við höfnina í höfn og minnstu munaði að mastur hennar lenti á þeim sem voru að reyna að tryggja hana.

Allar hendur eru á dekki á Stöðvarfirði en umfang tjóns og drasl um allt er það mikið að hreinsunarstarf allt mun taka drjúgan tíma. Mynd GG