Skip to main content

Hringvegurinn ekki opnaður við Lón í dag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2025 11:29Uppfært 26. sep 2025 11:29

Ekki verður reynt að gera við hringveginn við Jökulsá í Lóni í dag þannig hægt verði að opna hann. Ár og lækir narta víðar í vegi á Austurlandi.


Hringvegurinn við Jökulsá í Lóni fór í sundur á um 50 metra kafla í morgun. Mikið vatn er á ferðinni og rignir enn. Þess vegna þykir sýnt að ekki verði hægt að opna veginn í dag og er frekari upplýsinga ekki að vænta fyrr en í birtingu.

Björgunarsveitir manna lokunarpósta við bæði Djúpavog og Höfn og vísa öðrum frá en þeim sem eiga erindi inn á svæðið, svo sem í Álftafjörð og Hamarsfjörð.

Ár og lækir eru víða í miklum vexti og í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Berufirði eru ræsi sem vart hafa undan. Ekki hafa orðið teljandi skemmdir en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru verktakar í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.

Mesta úrkoman á Fáskrúðsfirði


Samkvæmt tölum frá Veðurstofunni var úrkoman frá miðnætti komin í 90 mm á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði. Hún er þá komin í um 116 mm frá því að rigningin skall á um klukkan 18 í gær. Þar rignir enn hraustlega.

Á Teigarhorni er úrkoman komin í 63 mm frá miðnætti og farin að nálgast 80 mm síðastliðinn sólarhring. Þar hefur heldur dregið úr úrkomunni eftir því sem liðið hefur á morguninn en hún er enn talsverð.

Í Neskaupstað er úrkoman frá miðnætti tæpir 50 mm og enn rignir mikið. Viðvörun vegna rigningar er í gildi fyrir Austfirði til klukkan 13:00.