HSA og ME koma vel út úr valinu um stofnun ársins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2025 10:45 • Uppfært 18. feb 2025 10:48
Þriðja árið í röð er Heilbrigðisstofnun Austurlands með bestu einkunnina meðal heilbrigðisstofnana í könnum Sameykis á stofnun ársins. Menntaskólinn á Egilsstöðum er áfram meðal þeirra hæstu í flokki meðalstórra stofnana.
Það er Sameyki stéttarfélag sem stendur árlega fyrir könnuninni meðal starfsfólk stofnananna. Í henni er reiknuð út einkunn fyrir viðkomandi stofnun út frá svörum starfsfólks í spurningakönnun þar sem til dæmis spurt er um þætti eins og ánægju með laun, vinnuskilyrði, stjórnun, starfsanda og sjálfstæði í starfi.
HSA er í tólfta sæti stofnana með 90 starfsmenn eða fleiri og meðal einkunnina 4,132. Hún skorar hátt á kvörðun eins og starfsanda, stjórnun, ánægju og stolti og jafnrétti.
Menntaskólinn á Egilsstöðum er í ár í fjórða sæti stofnana með 40-89 starfsmenn en stofnunin var efst þar fyrir árin 2021 og 2022. Einkunn skólans er 4,479. Hann skorar sérlega hátt fyrir ánægju og stolt og starfsanda en líka vel fyrir sjálfstæði í starfi og ímynd.
Verkmenntaskóli Austurlands er í 19. sæti stofnana með 5-39 starfsmenn og einkunnina 4,369. Skólinn er meðal þeirra allra hæstu þegar ánægja og stolt eru mæld en þar er mikil óánægja með laun. Kennarar í VA eru meðal fimm skóla í landinu sem boðað hafa til verkfalls frá og með föstudegi.
Í sama flokki er sýslumaðurinn á Austurlandi í 39. sæti með 4,039 í einkunn og lögreglan á Austurlandi fjórum sætum neðar með 4,968 í einkunn. Hjá báðum stofnunum er það einkum launatalan sem dregur heildareinkunnina niður.