HSA tekur við rekstri hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) tekur við rekstri hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði 1. apríl næstkomandi. Á hvoru heimili um sig eru hjúkrunarrými fyrir 20 íbúa. Forstjóri HSA segir að stofnunin muni leggja metnað sinn í að tryggja íbúunum áframhaldandi góða þjónustu og leggur áherslu á að hagsmunir þeirra verði hafðir í forgrunni.

Þetta kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðsins. Þar segir að sveitarfélagið Fjarðabyggð sagði upp rekstrarsamningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna tveggja þann 22. september síðastliðinn og lýkur samningstímanum um næstu mánaðamót. Sjúkratryggingar Íslands auglýstu eftir aðilum sem áhuga hefðu á að taka við rekstri heimilanna en engin viðbrögð bárust við þeirri auglýsingu.

Hjá HSA er þegar fyrir hendi þekking og reynsla á rekstri hjúkrunarheimila. Stofnunin rekur hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum, hjúkrunarheimilið Fossahlíð á Seyðisfirði og hjúkrunarheimili Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupsstað.

Guðjón Hauksson forstjóri HSA segir það stórt og mikilvægt verkefni fyrir stofnunina að taka að sér rekstur hjúkrunarheimilanna tveggja.

„Íbúar heimilanna og hagur þeirra verður í fyrirrúmi með áherslu á að tryggja þeim áframhaldandi góða þjónustu. Ég hlakka til að vinna með starfsfólki heimilanna og halda áfram að móta og efla þjónustu við aldraða íbúa Austurlands,“ segir Guðjón í tilkynningu á vefsíðunni.

Guðjón mun funda með starfsfólki hjúkrunarheimilanna hið fyrsta til að ræða næstu skref til undirbúnings því að HSA tekur að sér reksturinn um næstu mánaðamót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.