Hugmynd - hönnun - framleiðsla

ImageGarðar Eyjólfsson, mastersnemi í hugmyndafræðilegri hönnun, hélt fyrirlestur á vegum Þorpsins í síðustu viku. Fyrirlesturinn fjallaði í megindráttum um hönnun, samspil starfstétta, fordóma milli starfstétta og hvernig iðnaður, hönnun og handverk gætu skapað verðmæti í sameiningu.

Í upphafi fyrirlestrar skilgreindi Garðar hönnun og útskýrði hvers vegna hún skipti máli. Garðar segir sköpun vera þann hæfileika að búa til hugmyndir en nýsköpun sé aftur á móti kunnáttan að nýta hugmyndina. Hönnun tengir svo saman þetta ferli og myndar einskonar samskipti. Án hönnunar getur sköpun ekki þrifist því hönnunin gerir hugmyndina áþreifanlega.

Hönnun stendur hinsvegar ekki ein og sér og því skipta aðrar starfstéttir miklu máli. Hönnun virkar best í samvinnu við aðrar starfstéttir t.d. mannfræðinga, verkfræðinga og viðskiptafræðinga svo dæmi séu tekin.

Garðar segir efnahagshrunið hafa gert það að verkum að nýir tímar séu framundan þar sem þungaiðnaður, til dæmis virkjanir og fjöldaframleiðsla víki fyrir skapandi samfélögum þar sem minni fyrirtæki séu að ryðja sér til rúms með samhæfingu iðnaðar, hönnunar og handverks.

Garðar telur mjög mikilvægt að ýta undir tilraunamennsku og brúa bilið frá hugmynd yfir í framleiðslu. Til þess þurfa allir að setjast við sama borð og vinna saman.

Aðgangur að fjármagni þarf að vera til staðar og þar spilar ríkið stórt hlutverk. Að mati Garðars þá mun kostnaðurinn alltaf skila sér til baka því þótt aðeins ein hugmynd af tíu gangi upp þá borgar þessi eina upp kostnaðinn sem til fellur við nýsköpunarferlið.

Garðar fór yfir mikilvægi þess að nýta þá sérstöðu sem Austurland hefur upp á að bjóða til dæmis ullina, viðinn og hreindýraafurðir og benti á að leiðir til að ná fram þeirri sérstöðu með auknum sýnileika.

Fyrirlesturinn var vel sóttur og sköpuðust líflegar og skemmtilegar umræður að fyrirlestri loknum. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.