Húshitun kostar mest á Austfjörðum

Hæsti húshitunarkostnaður á landinu er á Reyðarfirði, Vopnafirði og í Neskaupstað eða um 191 þúsund kr. á ári. Í þessum hóp eru einnig Grundarfjörður, Hólmavík og Vík í Mýrdal. Þessi kostnaður er nær þrefaldur á við lægsta kostnaðinn á landinu sem er á bilinu 60 til 70 þúsund kr.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem Orkustofnun hefur gert fyrir Byggðastofnun . Þar sem kostnaðurinn er hæstur er um beina rafkyndingu að ræða en hitaveitu hjá þeim sem eru með lægsta kostnaðinn en það eru Flúðir, Seltjarnarnes og Brautarholt á Skeiðum.

Í úttektinni kemur fram að verð fyrir beina rafhitun hefur lækkað um 15% frá árinu 2014. Á Seyðisfirði þar sem um kynta hitaveitu er að ræða er kostnaðurinn nú 179 þúsund kr. en hefur lækkað um 18,7% frá 2014.

Á Eskifirði er hitaveita frá Hitaveitu Fjarðabyggðar og þar kostar húshitun 152 þúsund kr. og hefur hækkað um 0,8%. Lægsti húshitunarkostnaður á Austurlandi er á Egilsstöðum hjá hitaveitu Egilsstaða og Fella eða 101 þúsund kr. Hann hefur hækkað um 1,4% síða 2014.

Fram kemur m.a. að kostnaðurinn á Egilsstöðum er á pari við höfuðborgarsvæðið þar sem hann er að jafnaði 106 þúsund kr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.