„Húsið var vaktað af húsverði og með öryggismyndavélum“

Áður en yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi gerði hlé á störfum sínum á sunnudaginn síðastliðinn eftir talningu atkvæða var kjörgögnum komið fyrir í læstum kjörkössum sem voru innsiglaðir og salur Brekkuskóla á Akureyri, þar sem talning fór fram, læstur.

Þetta kemur fram í greinargerð Gests Jónssonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, sem landskjörstjórn óskaði eftir að fá úr öllum kjördæmum eftir að upp kom vafamál um hvort regluverki hafi verið fylgt eftir við talningu í Norðvesturkjördæmi. Greinargerðir úr öðrum kjördæmum en Norðvesturkjördæmi benda ekki til annars en öllu regluverki hafi verið fylgt við talningu atkvæða.

Talning atkvæða í Norðausturkjördæmi fór fram í Brekkuskóla á Akureyri og voru umboðsmenn allra flokka nema Frjálslynda lýðræðisflokksins, Pírata og Framsóknarflokksins viðstaddir talninguna.


Að talningu lokinni var kjörkössunum læst sem og salnum sem þeir voru geymdir í. „Raufar kjörkassanna voru allan tímann innsiglaðar með innsiglisborða. Húsið var vaktað af húsverði og með öryggismyndavélum meðan yfirkjörstjórn gerði hlé á störfum sínum frá kl. 10:00. Formaður yfirkjörstjórnar varðveitti lyklana að kjörkössum og salnum þar til yfirkjörstjórn kom aftur saman til fundar kl. 13:00 til að undirbúa yfirferð kjörseðla með tilliti til breytinga kjósenda og/eða útstrikana. Skýrsla var send til landskjörstjórnar upp úr kl. 14:00 en hún var upphaflega send til Hagstofu fyrir mistök. Einnig var gengið frá kjörgögnum, þ.e. ónotaðir atkvæðaseðlar, greidd atkvæði og kjörskrár voru eins og áður segir sett í kjörkassa og þeim komið í vörslu lögreglu í læstum kjörkössum til varðveislu í læstum fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri og hefur formaður yfirkjörstjórnar alla lykla í sinni vörslu. Annaðist lögreglan og 2 yfirkjörstjórnarmenn þann flutning. Vandséð er að mati undirritaðs að nokkur hefði getað átt við kassana eða komið gögnum ofan í þá án þess að skilja eftir ummerki þess. Sama gildir einnig um kjörkassa sem kjörgögn eru nú geymd í og eru í vörslu á lögreglustöðinni á Akureyri,“ segir í greinargerð Gests Jónssonar formanns yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.