Skip to main content

Húsnæðismál stór áskorun fyrir fólk sem glímir við alvarleg geðræn veikindi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2025 08:43Uppfært 06. feb 2025 16:50

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir manndrápsmálið í Neskaupstað „hræðilegt“ en setja verði slík mál í stærra sam­hengi tengt því úrræðaleysi sem jaðarsett fólk upplifir í samfélaginu. Geðrof eitt og sér skýri ekki ofbeldisglæpi.


Þetta segir Grímur spurður um mál Alfreðs Erlings Þórðarsonar sem hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt eldri hjón í Neskaupstað í lok ágúst. Rannsókn Austurgluggans og Morgunblaðsins, sem birtist í gær, leiddi í ljós að Alfreð var úrskurðaður í nauðungarvistun þegar atvikið átti sér stað. Hann hafði um árabil glímt við mikinn geðrænan vanda og ranghugmyndir.

Hann var úrskurðaður í vistun til allt að 12 vikna í byrjun júní í kjölfar atviks á Egilsstöðum um miðjan maí. Úrskurðurinn gerði ráð fyrir Alfreð Erling þyrfti ekki að vera vistaður á geðdeild ef hann sýndi bata. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær hann yfirgaf hana en hann var kominn austur í júlí.

Þrátt fyrir það var hann með litla eða enga þjónustu í herbergi á Reyðarfirði, sem útvegað var af Fjarðabyggð þegar árásin átti sér stað. „Þessi hópur er utan þjónustusvæðis,“ segir Grímur.

„Við erum alltaf að bregðast við einhverjum svona stöku málum en það breytist ekkert gagnvart þessum jaðarsetta hópi. Það er til að mynda maður sem er búinn að vera inni á réttargeðdeild í 56 ár þar sem það er ekkert viðeigandi úrræði sem finnst hjá félagsþjónustunni sem tekur við,“ segir Grímur.

Ekki nóg að byggja aðra geðdeild


Á vegum sjö ráðuneyta hefur frá í sumar verið unnið að því að finna úrræði fyrir fólk með mikinn vanda sem annað hvort hefur verið úrskurðað ósakhæft eða lokið afplánun í fangelsi og er á leið aftur út í samfélagið því ekki eru til önnur ráð, þótt það sé mögulega enn hættulegt. Minnisblað hópsins var skilað til ríkisstjórnarinnar í desember og verið til umræðu bæði hjá núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn.

Grímur segir nauðsynlegt að finna félagslegt búsetuúrræði fyrir þennan hóp. „Það er ekki nóg að byggja aðra geðdeild einhvers staðar. Þetta á líka við um fanga sem fá enga betrun í fangelsi. Þar eru menn sem eru með mikinn og flókinn vanda og eiga ekkert heima þar. Svo þegar dómur­inn er búinn þá tekur ekkert við. Þetta eru einstaklingar sem við erum búin að missa. Einstaklingar sem eru komnir á ákveðinn stað án þess að neinn grípi inn í á leiðinni.“

Skýri ekki manndráp


Hann telur mikilvægt að fram komi að of mikil einföldun felist í því að skella skuldinni á geðrof þegar voðaverk lík þeim sem voru í Neskaupstað í sumar eru framin. „Það er búið að rannsaka það að geðrof eitt og sér á ekki að skýra manndráp eða aðra glæpi. Þetta er gjarnan þannig að einstaklingarnir eru það jaðarsettir að þeir eru búnir að gefast upp. Þú ferð ekki bara og drepur fólk í tómarúmi. Það eru tíu þúsund manns sem eru öryrkjar vegna geðræns vanda og þessi hópur er ekki allur stórhættulegur. Það þarf að einblína á það hvers vegna fólk fremur glæpi. Ef þú ert jaðarsettur og ýtt til hliðar þá getur verið samhengi á milli þess og að ofbeldisglæpir séu framdir,“ seg­ir Grímur.

Forðast fangelsi eða stofnun


Varðandi hvað sé hægt að gera segir Grímur að fyrsta skrefið sé að setja geðheilbrigðismál í for­gang í samfélaginu. Þannig verði hægt að skoða nánar hvað sé gott og hvað megi bæta. „Þá má skoða hvað við erum að gera vel, rýna í hús­næðismálin, hvernig er önnur þjónusta? Húsnæðismálin eru sérlega stór áskorun því viss hópur hefur ekki í nein hús að vernda. Við þurfum húsnæði og viðeigandi úrræði og að reyna í lengstu lög að forðast það að þessi hópur sé í fangelsi eða inni á stofnun.“

Umfjöllunin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurgluggans/Austurfréttar.