Skip to main content

Hvað segir stjórnarsáttmálinn um Austurland?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. des 2024 10:23Uppfært 23. des 2024 10:28

Austurland er ekki ávarpað með beinum hætti í málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þó eru nokkur málefni sem snerta hann með beinni hætti en aðra. Hér eru helstu málin.


Stjórnarsáttmálinn inniheldur 23 málefnaflokka. Númer nítján fjallar um byggðamál. Þar segir að bæta eigi samskipti ríkis og sveitarfélaga til að treysta stoðir dreifðu byggða. Áhersla verði á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu, óháð búsetu. Fjarskiptainnviðir á landsbyggðinni verði efldir og unnið að frekari jöfnun á dreifikostnaði raforku.

Í kaflanum um heilbrigðismálin segir nánar að þjóðarátak verði gert í umönnun eldra fólks, meðal annars með fjölgun hjúkrunarrýma og eflingu heimahjúkrunar. Þá fái hver landsmaður fastan heimilislækni.

Auðlindagjöld til nærsamfélags


Í raforkukaflanum segir nánar að unnið verði að breiðri sátt um vindorkunýtingu, flutningskerfið styrkt og bætt við orkunýtingu til að styðja við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Raforkulögum verður breytt til að tryggja forgang heimila. Verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar munu fá forgang. Engin virkjun á Austurlandi er í þeim flokki í dag. Því er heitið að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum muni renna til nærsamfélags.

Þetta er útvíkkað í auðlindakafla sáttmálans þar sem talað er um „réttlát auðlindagjöld sem renni að hluta til nærsamfélags.“ Dæmi um slíkt verður skattur fyrir aðgengi ferðafólks að náttúruperlum. Komugjöld verða innheimt á meðan það verður útfært.

Heitið er strangari lögum um fiskeldi til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og hvötum til eldis á ófrjóum laxi eða í lokuðum kvíum.

„Ríkisstjórnin mun tryggja 48 daga til strandveiða,“ segir í sáttmálanum. Það er ekki nánar útfært en væntanlega er þarna ákvæði sem nýtist austfirskum strandveiðisjómönnum sem undanfarin ár hafa borðið skarðan hlut frá borði því önnur landssvæði hafa veitt upp landskvótann þegar fiskurinn gengur loks austur.

Átak gegn tómum íbúðum


Nýja ríkisstjórnin heitir því líka að „rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í vegakerfinu.“ Almennt eru sérstakar aðgerðir eða framkvæmdir ekki tilgreindar í stjórnarsáttmálanum en þar er þó komið inn á samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir því að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, meðal annars með breyttum reglum um skammtímaleigu. Samkvæmt nýrri úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru rúmlega 300 tómar íbúðir í Múlaþingi og er það í hópi sveitarfélaga með flestar tómar íbúðir.

Eitt af lokamarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að breyta kosningalögum til að „auka jafnræði í atkvæðavægi og þingsætadreifingu.“ Samkvæmt núgildandi lögum stefnir í að Norðausturkjördæmi missi eitt af sínum tíu þingsætum til höfuðborgarsvæðisins vegna ójafnvægis.

Einn ráðherra er úr Norðausturkjördæmi. Logi Einarsson úr Samfylkingunni verður menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Hann er einn þriggja ráðherra í ellefu manna ríkisstjórn sem koma úr landsbyggðarkjördæmum.