Hversu vel treysta kjósendur leiðtogunum?
Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, nýtur mests trausts meðal kjósenda í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, ef marka má skoðanakönnun sem Austurfrétt/Austurglugginn gerðu í lok ágúst.Gauti er eini oddvitinn sem meira en helmingi svarenda treysta vel. 53% segjast treysta honum vel eða mjög vel, þar af 27% mjög vel. 17% treysta honum illa eða mjög illa.
Næst mests trausts nýtur Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans. 40% segjast treysta henni vel eða mjög vel, þar af 18% mjög vel. 21% treystir henni illa eða mjög illa.
Traust til Jódísar Skúladóttur, oddvita Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Stefáns Boga Sveinssonar, oddvita Framsóknarflokks, er áþekkt. 33% segjast treysta Stefáni Boga vel eða mjög vel en Jódísi 32%. 15% segjast treysta henni mjög vel en 14% honum. Fleiri vantreysta Stefáni Boga, 32% segjast treysta honum mjög illa eða illa en 29% Jódísi.
21% treysta Þresti Jónssyni, oddvita Miðflokksins, vel eða mjög vel, þar af 13% mjög vel. 51% segjast treysta honum illa eða mjög illa. Fjórðungur svarenda segist hvorki treysta né vantreysta Gauta en um þriðjungur öðrum oddvitum.
Óumdeildir oddvitar
Sagt er að hverjum þyki sinn fugl fagur og það á við um kjósenda flokkanna, þeir styðja sinn oddvita. Þannig nýtur Gauti mjög mikils trausts 75% Sjálfstæðismanna og Hildur, Jódís og Þröstur njóta mjög mikils trausts síns fólks. Stefán Bogi nýtur mjög mikils trausts hjá 61% Framsóknarmanna en á móti kemur að enginn treystir honum mjög illa. Mikið vantraust kjósenda flokks í garð síns oddvita er almennt vart mælanlegt.
Myndin verður áhugaverðari þegar skoðað er hversu mikils trausts oddvitar njóta meðal kjósenda annarra lista. Þar kemur Gauti best út þar sem 16% kjósenda Framsóknarflokks og Miðflokks segjast treysta honum mjög vel og 19% óákveðinna. Kjósendur Vinstri grænna vantreysta honum helst.
Jódís nýtur talsverðs trausts meðal kjósenda Austurlistans og óákveðinna en kjósendur Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins auk þess sem hún virðist ekki eiga upp á pallborðið meðal Framsóknarfólks né óákveðinna. Utan eigin flokks er Hildi best treyst af kjósendum Vinstri grænna en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og óákveðnir vantreysta henni heldur.
Stefán Bogi nýtur takmarkaðs traust utan eigin flokks, annars staðar en hjá óákveðnum. Meira en þriðjungur kjósenda Miðflokksins segist alls ekki treysta honum. Vart er hægt að segja að Þröstur njóti trausts utan Miðflokksins en kjósendur Austurlistans treysta honum verst. 44% þeirra segjast treysta honum mjög illa.
Misjafnar skoðanir milli kynja og byggða
Þegar traust til oddvita er greint eftir aldurshópum nýtur Gauti mests trausts meðal fólks á aldrinum 18-24 ára, 34-45 og 54-65 ára. Stefán og Hildur eru vinsælust í aldurshópnum 25-34 ára, Jódís meðal 65 ára og eldri og Þröstur meðal 45-54 ára.
Gauti er sá oddviti sem nýtur mests trausts beggja kynja en talsverður munur er þó hjá þeim til hans. Þannig segjast 33% karla treysta honum mjög vel en 20% kvenna. Hildur virðist njóta nokkuð jafns trausts hjá kynjunum en konur treysta Stefáni Boga og Jódísi frekar en karlar. Karlar treysta Þresti mun betur heldur en konur.
Gauti nýtur mests trausts kjósenda á Fljótsdalshéraði og Djúpavogi, tæp 30% á hvorum stað segjast treysta honum mjög vel. Hildur er sá oddviti sem hlýtur mests trausts meðal Seyðfirðinga. Þau eiga þó það sameiginlegt að kjósendur úr þeirra heimabyggð eru líka þeir sem treysta þeim síst. Jódís nýtur svo mests trausts meðal Borgfirðinga.
Fyrirvarar og aðferðafræði
Könnunin var netkönnun opin dagana 25. – 31. ágúst. Hún var kynnt í gegnum Austurfrétt/Austurgluggann. Alls bárust 319 svör sem jafngildir því að 9% þeirra sem voru á kjörskrá í sameiningarkosningunum fyrir ári hafi svarað.
Með þeirri aðferð sem notuð var er ekki hægt að tryggja jafnt úrtak eftir aldri, kyni, búsetu eða öðru. Þannig má setja þann fyrirvara við niðurstöðurnar að karlmenn voru rúm 58% svarenda könnunarinnar en konur tæp 41%. Tæpt 1% skilgreindi sig undir öðru kyni. Hlutfall kynjanna á kjörskrá er nánast jafnt, karlar eru þó heldur fleiri.
Þannig nær könnunin heldur ekki að endurspegla aldurssamsetningu kjósendahópsins. Aldurshópurinn 65 ára og eldri er stærstur á kjörskrá, um 22% en ekki nema 12,5% svarenda. Sömuleiðis eru færri svör frá hópnum 25-34 ára miðað við hlutdeild í kjörskrá. Á móti eru fleiri svör frá 35-44, 45-54 og 55-64 ára en kjörskráin gefur til kynna.
Í þriðja lagi voru hlutfallslega fleiri Seyðfirðingar og Borgfirðingar en færri Héraðsbúar sem svöruðu könnuninni miðað við kjósendahópinn.
Austurfrétt/Austurglugginn í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshérað standa fyrir framboðsfundi klukkan 20:00 í kvöld með fulltrúum allra flokka. Fundurinn verður sendur út beint á Facebook-síðu Austurfréttar og verður upptaka af honum aðgengileg þar eftir á. Hægt að senda inn spurningar á meðan fundi stendur í gegnum Menti.com. Fram að fundi er hægt að senda inn spurningar á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Frá íbúafundi á Borgarfirði. Mynd: Magnús Þorri Jökulsson