Hvetja Sinfóníuhljómsveit Austurlands til að sækja um fastan ríkisstyrk
Múlaþing, fyrir sitt leyti, hefur ekki tök á að styðja við starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Austurlands með sérstöku föstu framlagi til rekstrarins að sinni en hvetur hljómsveitina til að eiga samtal við ríkisvaldið um fastan árlegan rekstrarstyrk.
Stjórn hljómsveitarinnar leitaði á náðir Múlaþings fyrir skömmu og fór fram á stuðning við starfsemina með föstu fjárframlagi en eftir yfirlegu fulltrúa í byggðaráði sveitarfélagsins var ekki talið mögulegt að koma til móts við sveitina með slíkum styrk að svo stöddu.
Sinfóníuhljómsveit Austurlands hefur nú verið starfandi um sjö ára skeið en hún formlega stofnuð í maí árið 2018. Sveitin haldið fjölda tónleika yfir það tímabil og það stundum í góðu samstarfi við annað tónlistarfólk en starf sveitarinnar og meðlima hennar er þó meira en það. Hljómsveitin gjarnan unnið með tónskáldum til að stuðla að aukinni tónsköpum sem Austurlandi tengist á einn eða annan hátt auk þess að bjóða upp á tónlistartengda fræðslu og aðstoða lengra komna tónlistarnemendur til að taka þátt í hljómsveitarstarfi.
Fram kom í bókun byggðaráðs Múlaþings vegna styrkbeiðninnar að hljómsveitin gæti sótt um í menningarstyrkjasjóð sveitarfélagsins en umsóknir í þann sjóð opnar um miðjan þennan mánuð og styrkjum þaðan úthlutað í janúar á nýju ári. En önnur hugsanleg leið væri að leita til ríkisins:
„Þá hvetur byggðaráð Sinfóníuhljómsveit Austurlands til að eiga samtal við ríkisvaldið um fastan rekstrarstyrk fyrir hljómsveitina og mögulegt mótframlag sveitarfélaga á Austurlandi. Deildarstjóra menningarmála er falið að bjóða hljómsveitinni aðstoð við að leita leiða við fjármögnun hljómsveitarinnar.“