Í von um betri líðan og námsárangur
Fræðslunefnd Fjarðabyggðar hefur lagt til að nemendum verði bannað að koma með snjalltæki í skóla. Í umsögn skólastjórnenda í Fjarðabyggð um tillögu bæjarráðs segir að snjalltæki spili stóra rullu í kennslu og sveitarfélagið verði að tryggja öllum nemendum aðgang að slíkum tækjum til að bannið nái fram að ganga.
Sigurður Ólafsson er formaður fræðslunefndar: „Rétt fyrir kosningar samþykkti bæjarráð að skoðað yrði að banna snjallsíma í skólum í ljósi mögulegra neikvæðra áhrifa á nemendur og því beint til fræðslunefndar að fjalla um málið. Fræðslunefnd ræddi það á fyrsta fundi eftir kosningar og kallaði eftir sálfræðiáliti frá Skólaskrifstofu Austurlands, áliti skólastjóranna í Fjarðabyggð, en einnig skilaði persónuverndarfulltrúi Fjarðabyggðar inn áliti.
Sálfræðiálitið frá Skólaskrifstofunni mælti eindregið með banni í ljósi þess að sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að snjallsímanotkun (og reyndar notkun samfélagsmiðla sérstaklega) hafi slæm áhrif á einbeitingu og námsárangur, en ekki síður á svefn og andlega líðan barna og ungmenna. Niðurstaða sérfræðinganna var því algerlega skýr og afdráttarlaus,“ segir Siguður.
Kennsla án snjalltækja er tímaskekkja
Í umsögn skólastjórnenda í Fjarðabyggð segir að gildi snjalltækja í skólastarfi sé ótvírætt og í raun ómögulegt að kenna nemendum ef útiloka á þau tæki sem notuð eru í daglegu lífi. „Að halda að skólastarf á 21. öld geti gengið án notkunar nýjustu tækni og tækja henni tengd er tímaskekkja. Menntun í dag gengur m.a. út á að vita hvernig umgangast á tæknina.“ Skólastjórnendur segja að ekki verði hægt að fallast á tillöguna nema Fjarðabyggð móti sér stefnu varðandi upplýsingatækni í skólum sveitarfélagsins og öllum nemendum verði tryggður aðgangur að snjalltækjum í skólunum, en sá tækjakostur sé misjafn eftir skólum.
Persónuverndarfulltrúi styður bannið
Í umsögn persónuverndarfulltrúa Fjarðabyggðar segir að mikilvægt sé að takmarka notkun símtækja eins mikið og hægt er þar sem myndataka á skólalóðinni í óþökk annarra gæti haft alvarlegar afleiðingar. Mat fulltrúans er að banna snjalltæki til reynslu í eitt skólaár og endurskoða bannið aftur að ári liðnu.
„Slíkar breyingar ganga bara með samvinnu og samstöðu allra aðila“
Sigurður segir að fræðslunefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að nemendum verði meinað að koma með snjalsíma í skólann nema með sérstakri undanþágu frá skólastjóra, en að jafnframt yrði snjalltækjaþörf skólanna metin og svo gengið í að tækjavæða þá þannig að allir skólarnir geti nýtt sér kosti netsins við kennslu.
„Bæjarráð tók vel í tillögu nefndarinnar, en fór fram á nánari útfærslu á framkvæmdinni. Í vikunni mun fræðslunefnd því funda aftur um málið og vonandi afgreiða það endanlega út úr nefndinni. Þá fer málið aftur inn á borð bæjarráðs og svo til bæjarstjórnar. Þetta verður svo allt kynnt fyrir starfsfólki skólanna, sem og foreldrum og nemendum, en ljóst er að slíkar breytingar ganga bara með samvinnu og samstöðu allra aðila. Viðbrögð hafa að stóru leyti verið jákvæð hingað til, enda skynja margir að notkun þessara tækja og miðla er komin fram úr öllu hófi. Við vonum að breytingarnar skili sér í bættri líðan og námsárangri barna og unglinga.“