Íbúar á Djúpavogi þurfa ekki lengur að spara vatn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jan 2025 10:15 • Uppfært 06. jan 2025 10:16
Íbúar á Djúpavogi þurfa ekki lengur að spara neysluvatn þar sem miðlunartankur vatnsveitu staðarins er orðinn fullur á ný. Hann tæmdist á laugardag og vatnslaust var á tímabili. Bilanir sem komu upp hafa verið lagfærðar en nýtt vatnsból verður tekið í notkun á allra næstu dögum.
Vatnslaust varð á Djúpavogi upp úr hádegi á laugardag og í kjölfarið voru íbúar beðnir um að spara vatn yfir helgina. Bilanir á tveimur stöðum urðu til þess að þannig fór. Annars vegar hætti Búlandsá að renna inn í inntakið á Búlandsdal, hins vegar brást vöktunarbúnaður í miðlunartanki sem átti að láta vita að vatnið færi þverrandi, eins og það gerði á föstudag. Inntakið var lagfært í snarhasti á laugardag.
Miðlunartankurinn var orðinn fullur aðfaranótt sunnudags og að sögn Aðalsteins Þórhallssonar, framkvæmdastjóri HEF Veitna, þurfa íbúar á Djúpavogi ekki lengur að spara vatn.
Viðgerðin á inntakinu þarf ekki að halda í marga daga því verið er að ljúka við nýtt vatnsból neðst í Búlandsá. Borun er lokið og stefnt á að setja niður dælur á morgun þannig að vatnsbólið verði orðið virkt öðru hvoru megin við næstu helgi.
Núverandi búnaður á Búlandsdal er kominn til ára sinna auk þess sem áin er opin þar og hefur borið í hann gróðurleifar og fleira sem fokið hefur í ána. Aðalsteinn segir að á nýja staðnum eigi vatnið að vera betur síað af náttúrunnar hendi og því eldri vandamál vonandi úr sögunni.
Með uppbyggingu iðnaðar á Djúpavogi, einkum tengt fiskeldi svo sem kassaverksmiðju Djúpskeljar, hafa kröfur um betra og stöðugra vatn aukist. Við þeim er brugðist með nýja vatnsbólinu.