Íbúar Austurlands fá 40% afslátt af flugi til Reykjavíkur
Íbúar á Austurlandi munu fá 40% afslátt af flugmiðum til og frá Reykjavík. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á blaðamannafundi í flugstöðinni á Egilisstöðum sem nú stendur yfir.
Afslátturinn, sem kallast Loftbrú.is , er bundinn við þá sem eiga lögheimili í fjórðungnum og nær til þriggja ferða, fram og til baka, á hverju ári.
Í tilkynningu frá Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu fyrir fundinn segir að Loftbrú veiti afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Fyrir utan Austurland á þetta við um Vestfirði, Norðurland, Höfn á Hornafirði og Vestmannaeyjar. Alls nær afslátturinn til um 60 þúsund íbúa.
„Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur segir að fullur afsláttur (40%) er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík.
Til að nýta Loftbrú auðkennir fólk sig á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.
Kostnaður ríkissjóðs er áætlaður 600 milljónir kr. á ársgrundvelli vegna afsláttarfargjaldanna. Á þessu ári verður hann um 200 milljónir kr.
Réttlætismál
„Í mínum huga er Loftbrú ein að mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi", segir Sigurður Ingi Jóhannsson.
"Ég er sérlega ánægður að sjá afsláttarkjörin verða að veruleika en verkefnið hefur verið á stefnuskrá minni síðan ég kom í ráðuneytið. Fyrirmyndin var sótt til nágranna okkar Skota en við höfum nú útfært verkefnið á okkar hátt og gert aðgengilegt í takt við áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera.“