Íbúar hvattir til að huga að öllu sem gæti fokið og halda sig svo heima
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2025 14:48 • Uppfært 05. feb 2025 14:49
Almannavarnir hvetja íbúa á Austurlandi til að huga að öllu sem gæti fokið utandyra og halda sig síðan heima á meðan ofsaveður gengur yfir landið. Rauðar viðvaranir taka gildi klukkan 18 í kvöld og gilda í um sólarhring.
Veðurstofan gaf upp úr hádegi út rauðar viðvaranir fyrir bæði Austurland að Glettingi og Austfirði. Lítillega lægir í nótt, en ekki meira en svo að liturinn á viðvörunum dettur niður í appelsínugult. Nýjar rauðar viðvaranir taka gildi klukkan átta í fyrramálið og gilda allan daginn.
„Við hvetjum íbúa til að vera ekki á ferðinni enda verður ekkert ferðaveður. Eins þarf fólk að gæta að öllu lauslegu sem gæti fokið,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fundaði með Vegagerð, Veðurstofu og viðbragðsaðilum fyrir hádegið og í kjölfarið fundaði almannavarnanefnd Austurland sérstaklega. Kristján segir að eystra séu allir viðbragðsaðilar tilbúnir. Aðgerðastjórn verður opnuð í dag og búist við að hún verði opin meðan veðrið gengur yfir.
Spáð er sunnan og suðvestan með hviðum upp á 40 m/s. Miklar líkur eru taldar á foktjóni. Því hefur meðal annars verið beint að eigendum smábáta í höfnum að huga að festingum þeirra. Ekki eru þó áhyggjur af hárri sjávarstöðu að þessu sinni.
Auk hvassviðrisins er spáð talsverði rigningu á Austfjörðum, fyrst og fremst sunnanverðum. Viðbúið er að aurskriður eða krapaflóð falli, einkum í lækjarfarvegum. Ekki er talin hætta í byggð.
Vegagerðin hefur gefið út að vegunum um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði verði lokað klukkan 15:00. Óvissustig er á Fagradal og Fjarðarheiði frá 16:00 en Vatnsskarði frá 18:00. Almennt er varað við hvassviðri á nær öllum vegum. Landsnet hefur varað við því að rafmagn geti farið við samslátt á línum sem gerist í miklu roki.