Íbúar í dreifbýli á Héraði farnir að brenna sorp því seint sækist sorphirðan
Á minnst þremur bæjum á Héraði hafa íbúar gripið til þess ráðs að brenna sorp sitt því víða hefur ekkert sorp verið sótt um eins og hálfs mánaðar skeið. Tafirnar helgast mest af lögfræðilegum vandamálum vegna kæra sem bárust vegna nýlega útboðs Múlaþings á sorpþjónustu næstu árin.
Íbúar margir í dreifbýlinu eðlilega orðnir fúlir með þessa stöðu mála og þar ekki síst barnafjölskyldur hvers sorptunnur fyllast gjarnan á skemmri tíma en hjá öðrum. Flestir hverjir hafa safnað ruslasekkjum saman við tunnur sínar og víða komið dágott fjall af rusli. Aðrir hafa gripið til þess ráðs að brenna sitt rusl til að koma í veg fyrir ólykt, umhverfislýti og ekki síst til að útiloka að að mýs og önnur meindýr sæki í troðna pokana.
Það var fyrirtækið Kubbur ehf. sem gengið var til samninga við eftir útboðið í haust og tóku þeir við sorphirðu í sveitarfélaginu þann 1. nóvember síðastliðinn. Síðan þá hefur engin sorphirða farið fram á nokkrum dreifbýlissvæðum á Héraði og Djúpavogi. Á þeim tíma var þegar orðin vika, tvær síðan rusl var síðast tæmt víða svo sumir hafa nú beðið sorphirðu í einn og hálfan mánuð eða tveimur vikum lengur en raunin á að vera.
Aðspurður um hvað valdi þessari miklu töf á sorphirðu í sveitunum segir Stefán Aspar Stefánsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Múlaþingi, ástæðuna meðal annars tengjast kærumálum vegna útboðs sveitarfélagsins í haust en veðurfar hafi einnig sett strik í reikninginn.
Vegna þeirra kæra hafi ekki verið unnt að fullgilda nýjan langtímasamning við nýjan sorphirðuaðila á sínum tíma en þó gerður skammtímasamningur til að einhver sorphirða færi samt fram þó kærumálin væru enn óleyst. Sá skammtímasamningur gerði aðeins ráð fyrir lágmarksþjónustu þangað til hægt yrði að fullgilda samning til fjögurra ára. Var þó tiltekið á vef Múlaþings þann 29. október síðastliðinn að sorphirða yrði með eðlilegum hætti framvegis.
Stefán segir að loks hafi verið skrifað undir langtímasamninginn á föstudag í síðustu viku og nú standa vonir til að fyrirtækið Kubbur setji allt á fullt á þeim svæðum sem ekkert hafa verið heimsótt. Gæla menn við að hægt verði að ljúka sorphirðunni alls staðar um miðja næstu viku.