Íbúar við Lambeyrarbraut efins um breytt skipulag

Staðfestingu nýs deiliskipulags fyrir Lambeyrarbraut á Eskifirði hefur verið frestað þar til haldinn hefur verið fundur með íbúum og hönnuðum. Íbúar hafa krafist skýrari svara í hvað fyrirhugaðar breytingar á götunni fela í sér.

Breytingar eru þegar orðnar á götunni því við breytingar á deiliskipulagi miðbæjar Eskifjarðar í ágúst í fyrra var samþykkt að breyta götunni í botnlangagötu. Það er meðal annars vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir í Lambeyrará, sem eru hafnar.

Nú liggur fyrir tillaga um að breyta götunni í vistgötu ofan Eskifjarðarskóla og bæta við einbýlishúsi á 650 fermetra lóð milli húsa númer 1 og 3, þannig nýja húsið yrði númer 1a. Gert er ráð fyrir þessari lóð í miðbæjarskipulaginu.

Íbúar við götuna hafa lýst efasemdum um þessi áform. Tólf þeirra skrifuðu undir erindi til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar þar sem þeir fóru fram á að staðfestingu skipulagsins yrði frestað þar til málin hefðu kynnt betur. Að öðrum kosti íhugi þeir að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem sé þeim þvert um geð en nauðugur kostur.

Í erindinu segjast íbúarnir í mikilli óvissu um hvernig gatan verði eftir breytingarnar, til dæmis hvaða áhrif það hafi að hún verði vistgata eða nýtt hús sem enn frekar þrengi að götunni.

Þeir segja að á fundu með embættismönnum sveitarfélagsins og fulltrúum úr nefndinni í apríl hafi komið fram að fullnaðarhönnun skipulagsins væri ekki lokið. Þess vegna vilji þeir fá hönnuðina á fund til að geta fengið um svör um hvernig leyst verði úr vandamálum sem skapist verði breytingarnar að veruleika.

Í bókun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar frá í síðustu viku kemur fram að skipulagið verði ekki staðfest fyrr en eftir fund íbúa með hönnuði sem haldinn verði í byrjun maí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.