Íbúum fjölgar hraðar en íbúðum

Íbúum á Austurlandi fjölgar umfram þær spár sem húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna byggja á. Á sama tíma fjölgar íbúðum á svæðinu ekki í takt við íbúafjöldann sem aftur skapar þrýsting á fasteignamarkaðinn á svæðinu.

Þetta kemur í ljós þegar rýnt er í húsnæðisáætlanir austfirsku sveitarfélaganna. Þrjú þeirra, Múlaþing, Fjarðabyggð og Fljótsdalshreppur hafa skilað inn uppfærðri húsnæðisáætlun eins og þeim ber að gera fyrir 1. mars ár hvert. Vopnafjarðarhreppur hefur ekki enn lokið við sína áætlun en þar er þó til minnisblað frá því í lok nóvember 2022 um uppfærslu á áætlun síðasta árs. Í áætlunum eru sveitarfélögin meðal annars beðin um að áætla íbúafjölgun og íbúðaþörf í þrennu lagi: bjartsýni, svartsýni og millivegi.

Íbúum í sveitarfélögunum sem skilað hafa inn áætlunum hefur fjölgað um 238 frá áramótum. Það er töluvert umfram spá þeirra, en bjartsýnasta útgáfan gerði ráð fyrir viðbót upp á 191 íbúa. Það er ekki nýtt, í fyrra var fjölgunin 120 manns umfram spárnar.

Nýbyggingar hafa ekki haldið í við þennan aukna fjölda. Áætluð íbúðaþörf á þessu ári samkvæmt miðspá eru 146 íbúðir. Tólf teljast fullbúnar það sem af er árið.

Tíu ára kyrrstaða


Við bætist að þörfin á nýbyggingum á Austurlandi er uppsöfnuð og nánast frost verið í þeim frá árinu 2008. Á árunum 2006-8 bættust við 450 fullbúnar íbúðir. Á árunum 2009-18 voru þær 100, þar af engar árin 2014 og 17. Í fyrra voru þær 30.

Vonast er til að það standi til bóta. Samkvæmt samantekt HMS frá því í september í fyrra voru 75 íbúðir í byggingu þá, samanborið við 42 á sama tíma árið áður. Stofnunin telur tvisvar á ári og er áætlað að taka stöðuna eystra á næstu vikum. Þótt staðan hafi batnað eru samt engan vegin nógu margar íbúðir í byggingu til að halda í við íbúafjölgunina. „Gatið stækkar ef ekkert er að gert,“ segir Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS.

Staðan á opinberum íbúðabyggingum


Talsverður hluti þeirra íbúða sem nú er í byggingu er á vegum opinberra aðila, fyrst og fremst Brákar, húsnæðisfélags í eigu sveitarfélaga víða um land. Þar er von á að fimm íbúðir á Reyðarfirði verði teknar í notkun á allra næstu dögum. Á Seyðisfirði er enn beðið eftir að kjarni með átta íbúðum rísi. Síðustu upplýsingar eru að þau rísi í maí og verði tilbúin fyrir jól.

Hrafnshóll er einnig að byggja tíu íbúða hús við Selbrún í Fellabæ. Það er langt komið og vonast er til að fyrirtækið fylgi í sumar eftir áformum sínum um allt að 40 íbúðir í viðbót við götuna.

Brák hefur samið við Búðina um byggingu parhúss á Eskifirði. Það fyrirtæki er einnig að klára parhús á Fáskrúðsfirði auk þess sem Búðingar hafa byggt á Breiðdalvík.

Í lok apríl rann út frestur til umsókna um stofnframlög fyrir íbúðir. Sótt var um á vegum Brákar fyrir 12 íbúðir á Austurlandi og nemur framlag ríkisins til þeirra rúmum 152 milljónum. Íbúðirnar eiga að koma á Reyðarfjörð, Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð. „Austurland sat eftir þegar farið var af stað með fyrstu stofnframlögin en það virðist nú horfa til betri vegar,“ segir Elmar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.