Skip to main content

„Inni í þessum ósköpum var fólk lífs og liðið“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. des 2024 12:00Uppfært 19. des 2024 17:01

Hjónin Logi Kristjánsson og Ólöf Þorvaldsdóttir, sem voru í framlínu neyðaraðgerða og enduruppbyggingar í Neskaupstað eftir snjóflóðin 1974, hafa gefið út bókina „Fjall í fangið“. Þar segja þau frá atburðum sem höfðu djúpstæð áhrif á samfélagið, en einnig frá þrautseigjunni við að byggja samfélagið upp aftur.

Skelfing snjóflóðanna í desember 1974


Föstudaginn 20. desember 1974 féllu tvö stór snjóflóð á byggðina innst í Neskaupstað Flóðin kostuðu 12 mannslíf og ollu mikilli eyðileggingu á svæði Síldarvinnslunnar, kjölfestu atvinnulífsins í bænum.

Logi var bæjarstjóri og leiddi aðgerðir við björgun og uppbyggingu. Hann var á skrifstofu úti í bæ þegar ritari hans hringdi til að láta hann vita af flóðinu. „Ég rauk út, kom við í kaupfélaginu og bað um allar stangir, sköft og skóflur áður en ég hélt áfram inn á Strönd,“ segir hann.

Ólöf var heima með fjögur ung börn þeirra. „Ég kom strákunum strax inn. Þegar ákveðið var að rýma húsið var mér sagt að koma okkur fyrir í herbergi sem snéri frá fjallinu – öll á sama stað,“ rifjar hún upp.

Hörmungar og ómögulegar aðstæður


Snjóflóðin höfðu miklar afleiðingar fyrir samfélagið. „Á bræðslusvæðinu mætti mér enn einn hryllingurinn. Allt í rúst, gjörsamlega. Stálgrindur voru vafðar eins og pappír um sundurtættar vélar og tæki,“ rifjar hann upp.

Ammoníaksleki í frystihúsinu flækti björgunaraðgerðir þar. Þrátt fyrir ógnvekjandi aðstæður lagði samfélagið sig fram við leit og björgun. Leit var skipulögð með hópum sem unnu í stuttum lotum vegna hættunnar. Á annan sólarhring fannst sá síðasti á lífi – ungur piltur sem slapp fyrir hreina tilviljun.

Á meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir var samfélagið í Neskaupstað samstillt. Egilsbúð, sem venjulega hýsti viðburði og bæjarskrifstofur, breyttist í fjöldahjálparstöð. Þar gisti Ólöf með börnin sín meðfram því sem hún reyndi að leggja sitt af mörkum, svo sem með símsvörun. „Við tókum ekkert með okkur og sváfum bara á gólfinu með peysur undir höfði og úlpur ofan á okkur,“ segir hún.

Eftir flóðin tók við uppbygging samfélagsins. Tveimur dögum eftir að þau féllu var Geir Hallgrímsson, þá forsætisráðherra, kominn á staðinn. Hann taldi kjark í heimafólk, hét stuðningi við enduruppbyggingu. Logi segir hafa skipt máli að fá þá hvatningu. Frystihúsið var komið í gang nokkrum mánuðum eftir flóðin, og bræðslan tók til starfa ári síðar. Ólöf segir að það hafi verið lífsnauðsynlegt að skapa trú á framtíðina. „Fólk þurfti tekjur til að lifa og varð að trúa á byggðina. Annars hefði ríkt vonleysi,“ segir hún.

Samhliða uppbyggingu var lögð áhersla á að rannsaka snjóflóðahættu á svæðinu. Norskir sérfræðingar í snjóflóðavörnum voru fengnir til að meta stöðuna og gera tillögur að vörnum. Fyrstu varnarmannvirkin voru þó ekki tilbúin fyrr en aldarfjórðungi síðar.

Erfitt að að skrifa bókina


Bókin fjallar ekki bara um snjóflóðin, heldur þau 11 ár sem Logi og Ólöf bjuggu í Neskaupstað. Þau fluttu austur sumarið 1973, hann til að taka við bæjarstjórastarfinu af Bjarna Þórðarsyni sem gegnt hafði því samfleytt í 23 ár. Nokkrum árum síðar tók Ólöf líka við af Bjarna, þá sem ritstjóri vikublaðsins Austurlands. Bókin segir því líka frá félagsstarfi í Neskaupstað og sögum úr bæjarlífinu. Hún inniheldur fjölda mynda, blaðaúrklippna, gagna úr fórum Loga og ljóð eftir Ólöfu.

Hjónin segja að erfitt hafi verið að skrifa bókina, að rifja upp harmleik sem hafði mikil áhrif á bæði þau sjálf og samfélagið í heild. „Margoft þurftum við að leggja verkinu, en okkur var mikilvægt að ljúka henni og koma sögunni á framfæri,“ segir Ólöf.

Lengri útgáfa birtist í jólablaði Austurgluggans sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.