Skip to main content

Innviðaráðuneytið staðfestir vanhæfi Ásrúnar Mjallar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. des 2024 15:08Uppfært 04. des 2024 15:13

Innviðaráðuneytið hefur staðfest að Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Múlaþingi, hafi verið vanhæf sem fulltrúi í umhverfis- og framkvæmdaráði við afgreiðslu deiliskipulags á Eiðum. Ástæðan er að Ásrún Mjöll er formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) sem sendu inn umsögn um skipulagið.


Kvörtun Ásrúnar til ráðuneytisins á sér rætur í tveimur málum. Annars vegar var lagði bæjarstjóri Múlaþings í desember í fyrra fram álit, sem hann óskaði eftir frá lögmanni sem sinnt hefur verkefnum fyrir sveitarfélagi, þar sem fram kom að Áslaug kynni að verða vanhæf við afgreiðslu mála sem NAUST væri á einhvern hátt aðili að.

Á þetta reyndi á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í lok febrúar þar sem Ásrún var kosin vanhæf til að fjalla um deiliskipulag sumarhúsabyggðar á Eiðum. Hún mótmælti því og bókaði að ákvörðunin væri ólögmæt, bryti gegn skoðanafrelsi og fæli í sér mismunum sem væri brot á stjórnarskránni. Í kvörtun sinni ráðuneytisins lýst Ásrún þeirri skoðun að þau ákvæði sem talin væru upp um vanhæfi í stjórnsýslureglum ættu ekki við hennar tilfelli.

Í álitinu kom fram að Ásrún, sem formaður NAUST, yrði vanhæf til að fjalla um mál sem nefndarmaður sem samtökin skiluðu inn umsögn. Forsvarsmaður félags hafi alltaf skyldur til að vinna að þess hagsmunum og þótt sjónarmið þess þurfi ekki að vera ómálefnaleg beri nefndarmaður ábyrgð á að líta til fleiri sjónarmiða.

Kvartaði yfir áliti, lögmanni og kjöri um vanhæfi


Kvörtun Ásrúnar var í þremur liðum. Í fyrsta lagi um að bæjarstjóri hefði án þess að gera henni viðvart látið vinna álit um hæfi hennar. Í öðru lagi við hæfi lögmannsins, sem hefur unnið fyrir virkjunarfyrirtækið Arctic Hydro og tekið þátt í almennri umræðu fyrir hönd þess. Í þriðja lagi vegna vanhæfiskjörsins.

Í síðari umsögnum sínum lýst Ásrún þeirri skoðun sinni að eðlilegt hefði verið að upplýsa hana um vinnslu lögfræðiálitsins. Hún telur einnig að niðurstaða þess hafi verið óljós eða ekki afgerandi og innihaldið síðar oftúlkað. Rétt er að taka fram að Ásrún skrifaði ekki undir umsögn NAUST um skipulagið heldur annar stjórnarmaður.

Rétt að kanna stöðu formanns hagsmunasamtaka sem kjörins fulltrúa


Í svörum sínum til ráðuneytisins segir forseti bæjarstjórnar, Jónína Brynjólfsdóttir oddviti Framsóknarflokks, hafi leitað álits starfsmanns Múlaþings um hvort Ásrún kynni að vera vanhæf í málum þar sem NAUST sendi inn umsagnir, eða jafnvel ætti lögbundna kæruheimild að. Rétt hafi verið talið að óska eftir sérfræðiáliti. Það sé ekki bindandi heldur leiðbeinandi og myndi gefa Ásrúnu kost á að kalla til varamann ef þyrfti.

Leitað hafi verið til lögmannsstofu sem sveitarfélagið hafi samning við. Lögmaðurinn starfi þar, sé sérfræðingur á svið sveitarstjórnarréttar og hafi oft leiðbeint sveitafélaginu. Hann sé einnig bundinn af siðareglum lögmanna um að hagsmunir skjólstæðinga megi ekki rekast á.

Sveitarfélagið útskýrði að umsögn NAUST hefði verið skilað í gegnum skipulagsgátt, á grundvelli skipulagslaga og þeim andmælarétti sem í þeim er. Þar var enn fremur vísað til fordæmis úr úrskurði ráðuneytis þar sem umsögn foreldra nefndarmanns gerðu hann vanhæfan, þótt þeir hefðu enga beina hagsmuni, því nefndarmaðurinn þyrfti að taka afstöðu til umsagnar náinna venslamanna.

Sveitarfélagið verður að gæta að hæfi fulltrúa


Ekki er sjálfgefið að innviðaráðuneytið, sem fer með málefni sveitarfélaga, taki vanhæfismál til úrskurðar. Það getur hins vegar tekið mál til umfjöllunar, meðal annars til að gefa út leiðbeiningar um hvernig vinna megi slík mál síðar. Ráðuneytið segir málið gefa ástæðu til að veita frekari leiðbeiningar um hvernig túlka eigi vanhæfi sveitarstjórnarmanna auk þess sem staða Ásrúnar sem kjörins aðalfulltrúa í sveitarstjórn gefi aukið vægi.

Um það, hvort sveitarfélagið hafi gert rétt í að leita sérfræðiálits lögmanns um hæfi fulltrúans, minnir ráðuneytið á að starfsmönnum sem kjörnum fulltrúum beri ávallt að gæta að lögmæti málsmeðferðar. Hæfisreglan sé þar eitt grundvallaratriðanna. Sé ekki gætt að henni geti það leitt til ógildingar ákvörðunar eða bótaskyldu.

Ráðuneytið bendir á fyrri úrskurði um að sveitarfélagið beri að afla frekari upplýsinga, meðal annars álits sérfræðinga, ef réttaróvissa skapist. Það sé á ábyrgð sveitarstjóra. Þess vegna sé eðlilegt að aflað sé gagna um hæfi sé óvissa uppi um það. Ráðuneytið gerir því ekki athugasemdir við að sveitarstjóri Múlaþings hafi óskaði eftir áliti lögmanns án vitundar Ásrúnar.

Rétt að skoða hver afli álits og hvenær


Ráðuneytið leggur þó fram athugasemdir um hvernig standa megi betur að slíku framvegis. Það minnir á að ákvörðun um vanhæfi sé alltaf í höndum kjörinna fulltrúa en ráðist ekki á sérfræðiáliti. Álitið sé aðeins liður í að upplýsa þá og þarf því að vera nógu skýrt þannig fulltrúar geti tekið ákvörðun út frá því. Í því felist meðal annars að dregin séu fram öll þau atriði sem máli skipta og því geti verið rétt að sá sem vanhæfur er talinn taki þátt í vinnunni með að leggja fram gögn eða koma á framfæri athugasemdum þegar álitið er tilbúið. Ráðuneytið telur reyndar að Ásrún Mjöll hafi fengið það tækifæri á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í lok febrúar.

Í umsögn sinni gaf Múlaþing til kynna að rétt væri að setja verklagsreglur um hverjir geti leitað álits á hæfi kjörinna fulltrúa hjá starfsfólki sveitarfélagsins og við hvaða aðstæður. Ráðuneytið tekur undir að slíkar reglur væru af hinu góða.

Kjörnir fulltrúar eiga að vekja sjálfir athygli á því ef þeir kunna að vera vanhæfir


Hvað varðar hæfi lögmannsins vísar ráðuneytið á að samkvæmt lögum taki fulltrúi, sem talinn er vanhæfur, þátt í að greiða atkvæði um hæfið. Hæfisreglur eigi því við ekki við á því augnabliki og þar af leiðandi heldur ekki um starfsmenn sveitarfélagsins eða sérfræðinga sem vinna undirbúningsgögn fyrir ákvörðunina. Ráðuneytið bendir á að sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sér til staðar telji einstaklingar að lögmenn hafi brotið siðareglur lögmanna.

Ráðuneytið ítrekar á að kjörnum fulltrúum ber að vekja athygli á því sjálfir ef hæfi þeirra orkar tvímælis. Það tekur fram að ekki megi misnota heimildina til að taka fólk úr leik en það leiði heldur ekki til ógildingar ákvörðunar hafi nefndarmaður verið kosinn vanhæfur ef sannarlega er vafi um hæfi hans.

Vanhæfi þegar félag nefndarmanns beitir sér með afgerandi hætti í máli


Ráðuneytið telur að NAUST sé ekki aðili málsins í eiginlegum skilningi eða hafi verulegra hagsmuna að gæta, hvorki fjárhagslegra né annarra. Það sé þannig ekki lögbundinn umsagnaraðili en kosið að skila inn umsögn. Augljós ákvæði um vanhæfi í stjórnsýslureglum eigi því ekki við, en þar er einnig að vinna málsgrein um að nefndarmaður teljist vanhæfur séu til staðar ástæður til að draga óhlutdrægni hans í efa.

Um nánari túlkun á því segir ráðuneytið að stjórnmálaskoðanir eða lífsskoðanir valdi almennt ekki vanhæfi, né heldur sé nefndarmaður almennur félagi í samtökum sem vinna að slíkum markmiðum, svo sem um náttúruvernd. Þá þýði tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar að einstaklingur sé aldrei vanhæfur vegna skoðana sem hann hafi viðrað opinberlega eða í fyrri störfum.

Hins vegar kunni fulltrúi að verða vanhæfur hafi hann barist opinberlega fyrir ákveðnum ráðstöfunum, sérstaklega hafi hann komið fram á mjög persónulega hátt. Þannig hafi félag hans beitt sér á áberandi hátt gegn tilteknum ráðstöfunum þá geti fyrirsvarsmenn þeirra orðið vanhæfir.

Ráðuneytið telur því augljóst að sama regla eigi við þegar félag, sem fulltrúinn fer fyrir, hefur skilað inn umsögn um skipulagsáætlun. Þar með hafi fulltrúinn, með persónulegum og opinberum hætti, beitt sér gagnvart þeirri ákvörðun sem til meðferðar er. Þar með hafi almenningur og aðrir málsaðilar ástæðu til að efast um að ákvörðun byggist á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið gerir því ekki athugasemdir við að Ásrún Mjöll hafi verið úrskurðuð vanhæf.