Skip to main content

Íþrótta- og tómstundastyrkir Fjarðabyggðar taka breytingum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jan 2025 13:37Uppfært 10. jan 2025 13:44

Rétt tæpar sautján komma fimm milljónir króna eru til úthlutunar til íþrótta- og tómstundastarfs í Fjarðabyggð á nýju ári en þessar styrkveitingar sveitarfélagsins tóku nokkrum breytingum nú um áramótin.

Um langt skeið hefur fyrirkomulagið í Fjarðabyggð vegna styrkja til íþrótta- eða tómstundastarfs verið með þeim hætti að beinir styrkir hafa verið veittir þeim sex megin íþróttafélögum sem í sveitarfélaginu starfa sem eru Þróttur, Austri, Valur, Leiknir, Súlan og Hrafnkell Freysgoði.

Á þessu verður breyting nú á nýju ári og ástæðan sú að hugtakið „meginfélag“ sem Fjarðabyggð hefur notað síðustu árin er hvergi notað sem hugtak innan Íþróttasambands Íslands enda þar hugmyndin að öll íþrótta- og tómstundafélög séu jafn hátt sett.

Vegna þessa mun Fjarðabyggð eftirleiðis úthluta styrkjum í þrennu lagi. Um 70% styrkfjárins fer beint í íþrótta- og tómstundastyrki og þar miðast styrkur við fjölda skráðra þátttakenda í hverju félagi fyrir sig. Í öðru lagi verður 25% varið til sérstakra samvinnustyrkja sem miða að því að greiða niður samstarfsverkefni hvers kyns og síðast en ekki síst fer 5% fjárins beint í ferðastyrki fyrir afreksfólk. Þar aðallega um styrki vegna þátttöku í landsliðsverkefnum eða öðrum afreksviðburðum sem fram fara.

Eftirleiðis verða engin "megin" íþrótta- eða tómstundafélög í Fjarðabyggð heldur allir jafnir undir sólinni. Mynd GG