Jakkafatajóga á Egilsstöðum
„Jakkafatajóga eru jógatímar sem eru sérsniðnir að fólki á vinnutíma. Við mætum á staðinn á fyrirfram ákveðnum tíma í samráði við stjórnendur. Leiðum stuttan og hnitmiðaðan jógatíma sem tekur aðeins 20 mínútur þannig að nú er engin afsökun að segjast ekki hafa tíma fyrir heilsuræktina þegar hún mætir til þín á þennan hátt,“ segir Eygló Egilsdóttir, eigandi fyrirtækisins Jakkafatajóga sem hefur starfsemi á Egilsstöðum í október.
Eygló stofnaði Jakkafatajóga árið 2013 með það markmið að koma hreyfingu inn í daglegar venjur almennings og þannig smám saman útrýma kyrrsetukvillum. Sjálf kynntist hún jóga gegnum móður sína strax í æsku sem stóð fyrir því að fá þekkta íslenska jógakennara til að koma og halda námskeið úti á landi þar sem fjölskyldan bjó.
„Upprunalega voru tímarnir mótaðir fyrir skrifstofufólk, en reynslan hefur sýnt okkur að æfingarnar sem við gerum í tímunum nýtast öllum; hvort sem um er að ræða skrifstofufólk, bifvélavirkja, smiði eða heilbrigðisstarfsfólk. Allir hafa gott af því að hreyfa sig á þennan hátt sem við gerum í tímunum og enginn þarf að skipta um föt.
Markmið tímanna er að auka blóðflæði til heila og helstu vöðva og auka þar með vellíðan og einbeitingu, ekki bara á vinnutíma, áhrifin vara mun lengur. Draumurinn okkar er að útrýma kyrrsetukvillunum, en þeir sem sitja mikið eða vinna með einhæfar hreyfingar vita hvað það er. Við þetta fólk viljum við segja; verkir eru ekki venjulegt ástand og það er auðvelt að vinna með vöðvana, þeir bregðast vel við áreiti eins og þessu.“
Aukin samvera eykur samkennd
Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og er með með starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Selfossi og Reykjanesi. Í október bætast Egilsstaðir svo í hópinn. „Þá mun Fjóla Kristín Hólm Jóhannesdóttir, jógakennari, taka að sér kennslu og leiða starf og þróun Jakkafatajóga á Austurlandi. Fjóla Kristín var áður búsett á Akureyri þar sem hún opnaði Jakkafatajóga-starfstöð sem er enn í blóma, þannig hún er eiginlega orðinn sérfræðingurinn okkar í að opna „útibú“ Jakkafatajóga á landsbyggðinni.
Fjóla segir að kaupendur þjónustunnar séu í flestum tilfellum fyrirtækin sjálf. „Iðkendurnir eru allt starfsfólkið og tíminn virkar ósjálfrátt eins og hópefli, því þarna mætast allir á sama stað og sama tíma. Aukin samvera í vinnu eykur samkennd á vinnustað og getur bætt léttleika í andrúmsloftið.“
Kynningarvika verður á Egilsstöðum dagana 8. - 12. október. „Við teljum að jóga eigi alltaf við og sérstaklega í hringiðu atvinnulífsins og viljum aðstoða fólk við að beita þessum fornu fræðum jóga á nútímalegar áskoranir.“