Jakob Frímann: Fólk virðist hafa kunnað að meta vísitasíuna

Oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi segist afar þakklátur fyrir þann stuðnings sem tryggði flokknum þingmann í kjördæminu í kosningunum á laugardag. Hann telur kosningafundir með tónlistarívafi hafa átt sinn þátt í að tryggja flokknum fylgi.

„Við lögðum af stað í mikla óvissuferð fyrir fjórum vikum. Þá voru ýmsir skeptískir á að við ættum erindi eða möguleika. Á þessum skamma tíma tókst okkur að byggja upp góðan hóp með þeim leiðum sem við völdum.

Því er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra sem lögðu mikið á sig til að þetta tækist,“ segir Jakob Frímann Magnússon, sem leiddi Flokk fólksins í Norðausturkjördæmi. Oddvitasætið tók hann um miðjan ágúst og listinn var staðfestur tveimur dögum áður en frestur til þess rann út.

Lögðum okkur fram um að hlusta

Jakob Frímann, sem þekktastur er fyrir að spila á hljómborð með Stuðmönnum, lagði af stað í kosningaherferð undir yfirskriftinni: „Spilað, spjallað, spunnið og spurt“ þar sem hann bauð fólki að hitta sig við píanóið til að ræða málin og upp úr því voru síðan unnin lög. Hann kom víða við í kjördæminu og telur að sú herferð hafi skipt miklu máli.

„Við vorum ekki að þruma yfir hausamótunum á fólki úr predikunarstól heldur að hlusta eftir röddum og áherslum svæðanna. Fólk virðist hafa kunnað að meta að við fórum og vísiteruðum alla staði og lögðum okkur fram um að hlusta.

Við fórum úr þeirri ferð betur sett. Við fundum síðan frá degi til dags aukna stemmingu fyrir okkar nálgun á hlutina.“

Jakob mældist aldrei kjördæmakjörinn inni í könnunum, en þær sýndu meðbyr með flokknum allra síðustu dagana fyrir kjördag. „Fyrstu vísbendingar á kosninganótt gáfu til kynna að þetta ferðalag og viðleitni til að kynnast fólkinu hefði heppnast,“ segir Jakob.

Fleiri tekið upp stefnumálin

Flokkurinn telst einn af sigurvegurum kosninganna. Hann fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum, tveir gengu úr skaftinu á kjörtímabilinu. Eftir kosningarnar á laugardag eru þingmennirnir sex.

„Við erum afar þakklát fyrir þennan öfluga og góða stuðning. Við getum ekki annað en verið sátt. Við hlökkum til að takast á við verkefnin og láta gott af okkur leiða.

Við höfum ástæðu til bjartsýni um okkar lykilmál, meðal annars því ýmsir leiðtoga hinna flokkanna hafa lýst stuðningi við þau, til dæmis að leiðrétta þá kjaragliðnun sem eldri borgarar og aðrir jaðarsettir hafa mátt sæta. Að koma slíkum málefnum á dagskrá svo eftir sé tekin er viðurkenning á því sem Flokkur fólksins var stofnaður um.“

Tilbúin að vinna með öllum

Jakob Frímann hefur verið á Akureyri en er á leið suður á fyrsta formlega fund þingflokksins í fyrramálið sem hann hlakkar til. „Við erum ekki lengur með tveggja þingmanna flokk heldur sex. Það er mikil stemming í hópnum og bjartsýni um að við höfum gengið til góðs. Við munum gera það áfram.“

Þótt ríkisstjórnin hafi haldið meirihluta sínum er ekki sjálfgefið að hún haldi áfram og ýmsir möguleikar í stöðunni. Núverandi flokkar virðast ætla að byrja á að ræða saman og á meðan bíða aðrir.

„Við bíðum. Við höfum gefið það út að við erum reiðubúin að vinna með öllum sem eru sammála okkur um þessi brýnustu mál, svo sjáum við hverju fram vindur. Við höfum enga fyrirvara gagnvart neinum flokkum. Við sjáum enga óvini í hornum nýskipaðs þings. Okkur líst vel á það mannval sem þar hefur valist saman og horfum björtum augum til samstarfsins við hina 57 sem tekið hafa sæti með okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.