Skip to main content

Jens Garðar: Augljós hægri sveifla í landinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. des 2024 11:15Uppfært 02. des 2024 11:16

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, telur úrslit þingkosninganna á laugardag merki um að vaxandi fylgi við hægri flokkana í landinu. Hann segir flokkinn hafa náð markmiði sínu í kjördæminu, að halda þeim tveimur þingmönnum sem hann hafði.


„Að mínu viti eru úrslitin merki um augljósa sveiflu hægra megin við miðju í landinu. Vinstrinu er hafnað. Píratar og Vinstri græn detta út af þingi á meðan Sósíalistar koma ekki manni inn. Samfylkingin er vissulega stærsti flokkurinn en hún hafði fyrir ekki svo löngu mælst með 30% fylgi. Í þessu felast augljós skilaboð.

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur ákveðinn varnarsigur og ég er ánægður með það. Markmið okkar var að halda tveimur þingmönnum í kjördæminu og það tókst,“ segir Jens Garðar, aðspurður um viðbrögð við úrslitum kosninganna.

Hann er í hópi rúmlega 20 einstaklinga sem taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Hann var varaþingmaður kjörtímabilið 2013-16 en tók ekki sæti. Þessir nýju þingmenn bíða þess nú að þingið verið kallað saman.

„Ég hlakka til að takast á við ný verkefni. Í hönd fer samkvæmisleikurinn um að mynda ríkisstjórn. Eftir kosningarnar 2021 tók það átta vikur. Alþingi er ekki kallað saman fyrr en ríkisstjórnin hefur verið mynduð þannig það er alls óvíst hvenær við hefjum formlega störf.“

Tveir þingmenn eru búsettir á Austurlandi, annars vegar Jens Garðar, hins vegar Eydís Ásbjörnsdóttir úr Samfylkingunni. Þau eru bæði ný.

„Við höfum bæði verið virk í okkar flokkum í gegnum tíðina en það er skemmtileg tilviljun að þetta veljist svona að við förum saman á þing héðan. Við erum að fara starfa saman á ný eftir að hafa verið í bæjarráð Fjarðabyggðar í mörg ár.“