Skip to main content

Jens Garðar býður sig fram sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. feb 2025 13:28Uppfært 23. feb 2025 13:31

Eskfirðingurinn Jens Garðar Helgason, hefur tilkynnt að hann bjóði sig fram sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Kosið verður á landsfundi flokksins um næstu helgi.


Jens Garðar var kosinn á Alþingi í þingkosningunum í lok nóvember í fyrra. Áður hafði hann verið valinn sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi.

„Framundan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar.

Kraftinn má ekki tjóðra niður með vantrú, óþarfa hindrunum, þunglamalegu regluverki eða með því að líta á atvinnulífið sem mjólkurkú fyrir hið opinbera,“ segir Jens í yfirlýsingu sem hann birti í dag.

Jens Garðar var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og í bæjarstjórn þar í 12 ár, þar af í átta ár í meirihluta en þann tíma var hann formaður bæjarráðs. Hann hefur einnig gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum innan flokksins.

Jens Garðar hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, var varaformaður Samtaka atvinnulífsins í fjögur ár og í framkvæmdastjórn samtakanna í sex ár.