Jódís: Ekki 100% öruggur þingmaður enn

Jódís Skúladóttir, nýr þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, kveðst hafa verið vansvefta og ringluð þegar hann bárust skilaboð um það í gærmorgunn að hún væri orðinn þingmaður. Hún sat síðan sinn fyrsta þingflokksfund nokkrum tímum síðar.

„Ég vakti mjög lengi um nóttina en sofnaði undir morgun í 1-2 tíma. Ég vaknaði klukkan 8:30 og var þá ekki inni. Ég var róleg enda gengum við ekki að neinu vísu.

Síðan komu þessar gríðarlega ánægjulegu fréttir. Ég var nývöknuð og ringluð því ég hafði varla sofið dögum saman. Ég var búinn að kveikja á sjónvarpinu og var að leita að kosningaútsendingu en fann bara teiknimyndir.

Síðan fæ ég skilaboð frá kosningastjóranum sem var að fagna. Strax á eftir fæ ég myndsamtal frá hágrátandi vinkonu minni úr kosningapartýi í Rússlandi sem sagði mér að ég væri inni,“ segir Jódís.

Mikill stuðningur við Katrínu í forsætisráðuneytinu

Hún skipaði annað sætið á lista VG og fór inn þegar lokatölur bárust úr Norðausturkjördæmi sem jöfnunarþingmaður. Hún hafði verið inni nokkrum sinnum um nóttina sem slíkur en alltaf átt langt í land með að verða kjördæmakjörin, líkt og kannanir höfðu reyndar sýnt.

„Ég held að niðurstaðan hafi komið mörgum á óvart því fylgið hafði verið allt annað meðan kosningabaráttan fór fram. Það er okkur mikilvægt að halda tveimur þingmönnum í Norðausturkjördæmi sem hefur verið sterkasta vígi flokksins nú þegar Steingrímur J. Sigfússon stígur til hliðar.

Við vissum ekki alltaf á hverju við ættum von. Ríkisstjórnarsamstarfið var gagnrýnt á kjörtímabilinu en nú heyrum við að mikilvægt að flokkurinn sé áfram í ríkisstjórn. Hann mældist lágt í könnunum en samt var hávær krafa, þvert á flokka, um að Katrín Jakobsdóttir yrði áfram forsætisráðherra.“

Ríkisstjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hélt velli og bætti reyndar við sig þingmönnum. Aðspurði vildi Jódís lítið gefa út um skoðun sína á framhaldi samstarfsins. „Ég vil lítið tjá mig um það. Ríkisstjórn hélt og hefur stuðning í samfélaginu. Ég held að sá stuðningur velti mikið á setu Katrínar í forsætisráðuneytinu. VG er annars öflugur flokkur sem gerir gagn hvar sem hann er. Mín trú er að allar ríkisstjórnir séu öflugri með VG en hann er líka öflugur í stjórnarandstöðu.“

Ringulreið jöfnunarþingmanna eftir endurtalningu

Eftir að úrslitin lágu fyrir í gær lá leið Jódísar út á flugvöll til að mæta á þingflokksfund VG sem hófst skömmu fyrir klukkan fjögur í gær. Hún tók síðan næstu vél austur aftur. „Það var mjög gaman að sitja fundinn með vinum mínum. Við þekkjumst öll vel. Það var nauðsynlegt að fara yfir stöðuna því það eru mörg verk framundna, sama hver situr í ríkisstjórn.“

Hólmfríður Árnadóttir, sem fór inn sem jöfnunarþingmaður í Suðurkjördæmi, var meðal þeirra sem sátu fundinn. Skömmu eftir hann bárust þær fréttir að hún hefði dottið út eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi en Orri Páll Jóhannsson, fyrrum landvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, væri mættur í staðinn sem jöfnunarmaður í Reykjavík.

Búið er að kæra talninguna fyrir norðan og krefjast endurtalningar í Suðurkjördæmi. Hringekja jöfnunarmannanna gæti því aftur farið af stað. Samkvæmt því sem Austurfrétt kemst næst er ekki talið að sæti Jódísar fari á hreyfingu við endurtalningu fyrir sunnan, breytingar þar þýði aðeins að það sem gerðist í gær gangi til baka.

„Þetta er búinn að vera rússíbani og verður það áfram. Ég er því ekki 100% enn, en ég er bjartsýn því flestir sem þekkja til segja mér að ólíklegt sætið mitt breytist. Ég vona að svo verði, þótt ég vonist líka eftir að við fáum kjördæmakjörinn þingmann í Suðurkjördæmi.“

Stórsigur Rauðhyltinga

Jódís er annar þingmaðurinn með lögheimili á Austurlandi. Hin er Líneik Anna Sævarsdóttir úr Framsóknarflokki. Þær eru náskyldar, afi Jódísar er bróðir föður Líneikar, sem ólst upp í Rauðholti í Hjaltastaðaþinghá þar sem Jódís var líka í sveit.

„Rauðhyltingar unnu stórsigur í þessum kjördæmum. Við Líneik erum náfrænkur og miklar vinkonur. Við störfum auðvitað fyrir frekar ólíka flokka en við munum vinna vel fyrir kjördæmið, einkum Austurland.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.