Jón Björn gefur kost á sér í annað sætið

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingskosningarnar í haust.

Jón Björn er 48 ára gamall Norðfirðingur sem hefur verið virkur í starfi flokksins lengi, en hann tók fyrst sæti í nefndum á vegum sveitarfélagsins Neskaupstaðar kjörtímabilið 1994-98. Síðan hefur hann setið í fjölda nefnda þar, verið í bæjarstjórn frá 2010 og var forseti hennar þar til í haust að hann tók við sem bæjarstjóri.

Jón Björn hefur einnig setið í fjölda nefnda og stjórna á vegum austfirskra sveitarstjórna, sem og ýmsum fyrirtækjum og öðrum félagsstörfum. Hann hefur verið ritari Framsóknarflokksins frá árinu 2016 og segist í tilkynningu hafa í gegnum það starf kynnst vel flokksstarfinu.

„Sú öfluga grasrót sem innan flokksins starfar er mikilvæg og ég hef stundum sagt að í henni grundvallist kjörorð samvinnunnar – Máttur hinnar mörgu - sem á að vera undirstaða Framsóknarflokksins sem félagshyggjuafls. Sveitarstjórnarmál eru mér, eins og gefur að skilja, mjög hugleikinn og þar hef ég öðlast mikla reynslu í áðurgreindum störfum mínum. Þar þarf að hafa í öndvegi að stór mál, líkt og t.d. friðlýsingar, verða ekki unnin nema í góðri sátt. Virða þarf sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og vilja þeirra íbúa sem þar búa.

Þá standa mér einnig nærri mál sem tengjast búsetu fólks á landsbyggðinni. Jöfnun búsetuskilyrða í sem víðustum skilningi er mér afar hugleikinn. Við þurfum að búa þannig um hnútana að búseta sé val, og við neyðum ekki fólk til að yfirgefa landsbyggðina vegna skorts á þjónustu eða fábrotinna atvinnutækifæra. Við verðum að nýta okkur tækniframfarir síðustu ára til að fjölga störfum á landsbyggðinni, störfum án staðsetningar, og þar getur hið opinbera gengið á undan með góðu fordæmi. Uppbygging klasasetra, til að gera fólki kleift að stunda vinnu án staðsetningar en um leið að vera þáttakandi á vinnustað, getur verið afar mikilvæg í þessu sambandi.

Einnig er mikilvægt að hlúð sé vel að því öfluga, og fjölbreytta atvinnulífi sem finna má í Norðausturkjördæmi. Í kjördæminu eru mörg öflug fyrirtæki á ýmsum sviðum, sem gefa þarf tækifæri til að vaxa og dafna. Við þurfum að hætta að tala um hvað horfur í landbúnaði séu góðar til framtíðar, og finna frekar leiðir til að gera hann að öflugri atvinnugrein líkt og sjávarútvegurinn er.

Þá þarf að huga vel að vaxtasprotunum sem hafa verið að koma fram s.s. í fiskeldi sem í felast mikil tækifæri, og þá er efling menntunar og áframhaldandi uppbygging samgangna sem eru landsbyggðinni afar mikilvæg.

Þannig mætti lengi telja en fyrst og síðast brenn ég fyrir að vinna landi og þjóð gagn. Framsóknarflokkurinn á að vera leiðandi stjórnmálaafl í okkar kjördæmi og ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að svo verði fái ég til þess traust Framsóknarfólks þar.“

Jón Björn er giftur Hildi Völu Þorbergsdóttur og eiga þau tvö börn.

Valið verður á listann með póstkosningu í marsmánuði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.