Jóna Árný Þórðardóttir keypti fyrsta afsláttarflugmiðann

Það var Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar sem keypti fyrsta flugmiðann til og frá Reykjavík með 40% afslætti á Egilsstaðaflugvelli í dag.

Þetta gerðist á blaðamannafundinum þar sem afslátturinn, Loftbrú.is, var kynntur af Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra.

Jóna Árný var að kynna hvernig ferlið við að kaupa miðann með rafrænum skilríkjum gengur fyrir sig, Hún lét þess getið að hún bókaði sig frekar létt til Reykjavík þ.e. aðeins með handfarangur en leiðina til baka bókaði hún með meira af farangri.

Jóna Árný stóð við stóran flatskjá þegar hún bókaði miðann í beinu streymi á vegum ráðuneytisins. Það vakti nokkra kátínu viðstaddra þegar hún uppgvötvaði að hún var að skrá upplýsingarnar af Visakorti sínu í beinni útsendingu. Stökk einn af aðstoðarmönnum ráðherrans til og setti hendina fyrir myndavélina á meðan kortaaupplýsingar voru settar inn.

Jóna Árný sat í stýrihópnum sem undirbjó Loftbrú.is en verkið var unnið undir stjórn Vegagerðarinnar í samvinnu við samgönguráðuneytið og flugfélaganna þriggja sem fljúga innanlands.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar tók einnig til máls á fundinum. Hún sagði að verkefnið hafi farið af stað í mars þegar COVID faraldurinn var að komast í hámark. Því hafi orðið nokkrar tafir í upphafi.

„En síðan hefur verkefnið gengið alveg lyginni líkast og þeir sem hafa komið að því eiga þakkir skildar,“ segir Bergþóra.

Í lok fundarins þakkaði Sigurður Ingi einnig kærlega þeim stóra hóp sem kom að þessu verkefni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar