Kærkomnar fréttir sem ber að fagna

Yfir 90% landsmanna ætla að ferðast innanlands í sumar. Þar af ætlar tæplega helmingur að nýta sér hótelgistingu. Þetta kemur fram í könnun Gallup sem gerð var í síðasta mánuði.

“Þetta eru mjög kærkomnar fréttir og þeim ber að fagna,” segir Þráinn Lárusson eigandi 701 hotels. “Það er mín skoðun að Íslendingar muni nýta sér ferðamöguleika innanlands í meiri mæli á komandi árum en áður hefur þekkst.”

Þráinn segir að ferðasumarið mikla í fyrra innanlands hafi sýnt landsmönnum að þjónusta og veitingar á landsbyggðinni eru ekkert síðri en á höfuðborgarsvæðinu.

“Þá kemur einnig til að núna er hægt að bóka hótelgistingu á hagkvæmum kjörum allavega í júlí,” segir Þráinn. “Það er ekki mikið af erlendum ferðamönnum sem kemur hingað austur í júlí en fjöldi þeirra eykst í ágúst.”

Fjallað er um könnunina á vefsíðu Ferðamálastofu Þar segir að flestir landsmenn ætla í sumarbústaðaferð eða þrír af hverjum fimm. Þar á eftir koma heimsóknir til vina og ættingja (44%), borgar- og bæjarferð(ir) (44%), ferð(ir) með vinahópi eða klúbbfélögum (36%) og útivistarferð(ir) (32%). 

Tæplega helmingur landsmanna ætlar að nýta sér hótelgistingu á ferðalögum innanlands í sumar. Þeim mun hærri sem fjölskyldutekjurnar eru því líklegra er fólk að nýta sér hótelgistingu. Yngsti aldurshópurinn virðist ekki ætla að nýta hótelgistingu í sama mæli og þeir sem eldri eru.

Um tveir af hverjum fimm ætla að gista hjá vinum og ættingjum eða í sumarhúsi í einkaeign og um þriðjungur ætlar að gista á skipulögðu tjaldsvæði eða í orlofshúsi félagsamtaka. Aðra tegund gistingar ætla landsmenn að nýta í minna mæli.

Einnig kemur fram að áform um innanlandsferðir hafa lítið breyst frá sambærilegri könnun sem gerð var fyrr á árinu þ.e. í janúar og febrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.