Skip to main content
Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands hafa ávallt verið vel sóttir en mikið umstang og kostnaður fylgir hverjum og einum þeirra. Mynd SInfóAust

Kanna áhuga ríkisins að styðja við starf Sinfóníuhljómsveitar Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. nóv 2025 11:03Uppfært 14. nóv 2025 11:03

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Austurlands hefur þegar leitað til ríkisins hvort vilji sé til að veita sveitinni fast árlegt fjárframlag til rekstursins en þetta er í annað skipti sem óskað er eftir slíkum stuðningi.

Austurfrétt greindi frá því fyrir skömmu að stjórn sveitarinnar hefði í síðasta mánuði leitað á náðir Múlaþings um fast framlag úr sjóðum sveitarfélagsins en þar var ekki hægt að verða við þeirri ósk að sinni. Viðræður þeirra á milli eru þó enn í gangi enda ríkur vilji innan sveitarfélagsins að koma með einhverjum hætti til móts við sveitina. Byggðaráð Múlaþings hvatti hljómsveitina meðal annars um daginn til að kanna hvort ekki væri vilji hjá ríkisvaldinu til að veita fastan árlegan styrk.

Áhuga ríkisvaldsins á slíku hefur stjórn sveitarinnar áður kannað að sögn Sóleyjar Þrastardóttur, formanns stjórnar, án árangurs en nú þegar hefur það erindi verið ítrekað öðru sinni og standa vonir til að betri niðurstaða verði raunin í þetta skiptið.

„Við vorum í samskiptum við ráðuneytið árið 2024 en á þeim tíma kom ekkert út úr því. En nú er búið að hafa samband á ný til að fylgja þessu máli eftir og kanna hug ríkisvaldsins til að koma að þessu með einhverjum hætti. Það er nú þegar til staðar svona óbeinn styrkur til okkar í gegnum Uppbyggingarsjóð en það er hlutur sem við þurfum reglulega að sækja sérstaklega um og það hefur stundum verið erfitt því við höfum fengið höfnun þaðan með litlum fyrirvara sem setti ýmislegt í uppnám um leið. Nú er verklagið hjá okkur að ákveða ekki að tiltekið verkefni fari í endanlega framkvæmd fyrr en styrkurinn frá þeim sjóði er í höfn.“ 

Helstu styrktaraðilar sveitarinnar síðustu árin hefur verið Tónlistarmiðstöðin á Eskifirði og Menningarstofa Fjarðabyggðar auk úthlutunar úr Uppbyggingarsjóðnum og styrkja úr menningarsjóðum eftir atvikum. Sóley segir árlegan rekstrarkostnað Sinfóníuhljómsveitarinnar vera kringum tíu milljónir króna og því ekki um stórar fjárhæðir um að ræða til að tryggja reksturinn til langframa.