Kjarnafæði skyldað til að selja eign sína í Sláturfélagi Vopnfirðinga

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða með skilyrðum. Meðal þeirra er að sameinað félag selji eign sína í Sláturfélagi Vopnfirðinga.

Kjarnafæði og Norðlenska hafa um nokkurn tíma átt í viðræðum um sameiningu en samningar tókust loks á síðasta ári með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem liggur nú fyrir.

Fyrirtækin sem sameinast hafa sterk tengsl við Austurland, fjölmargir bændur á svæðinu eru meðal þeirra tæplega 500 sem eiga hlut í Norðlenska í gegnum móðurfélag þess, Búsæld og slátra gripum sínum þar.

Þá hefur Kjarnafæði átt um þriðjungs hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga. Samkeppniseftirlitið setur þau skilyrði að sameinað félag selji þann hlut sinn til bænda eða félaga í meirihlutaeigu bænda. Tímafrestur er til að ganga frá henni en ekki gefið upp hve langur.

Í ársreikningi Sláturfélags Vopnafjarðar fyrir árið 2019 kemur fram að Kjarnafæði hafi keypt um 80-90% afurða félagsins og þau hafi verið á markaðslegum forsendum. Þá hafa SAH afurðir einnig keypt af Vopnfirðingum.

Í skilyrðunum segir að sameinað félag sé skuldbundið til að eiga áfram í viðskiptum við Sláturfélagið í tiltekinn tíma. Þetta sé til að tryggja áframhaldandi rekstur þess og tilveru, gefa því tíma til að bregðast við breytingum þannig félögin geti starfað sem sjálfstæðir keppinautar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.