Skip to main content

Kjörfundum verður ekki frestað á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2024 18:43Uppfært 30. nóv 2024 18:45

Kjörfundi er lokið á fjórum stöðum á Austurlandi og allar líkur á að svo verði annars staðar í fjórðungnum. Það þýðir að Austurland mun ekki fresta kjörfundi né koma fyrir að hægt sé að hefja talningu. Björgunarsveitir flytja kjörgögn á milli staða.


Kjörstjórn Fjarðabyggðar gaf það út við yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis um klukkan fimm í dag að hún sæi fram á að kjörfundur myndi klárast. Þegar sýnt þykir að kjörfundi alls staðar ljúki með eðlilegum hætti er heimilt að hefja flokkun atkvæða. Formleg talning hefst ekki fyrr en eftir klukkan 22:00.

Fyrsta kjörstaðurinn sem lokaði á Austurlandi var Mjóifjörður klukkan 14:00, sem er lágmarksopnun. Mjófirðingar höfðu reyndar allir kosið utankjörfundar og búið að koma þeim atkvæðum í hús. Engin atkvæði þarf því að flytja á milli staða.

Aðrir kjörstaðir í Fjarðabyggð eru opnir til klukkan 22:00. Kjörsókn á kjörstað klukkan 18:00 var 46,9%. Hún var 51,6% í forsetakosningunum í sumar á sama tíma. Utankjörfundaratkvæði eru hins vegar mun fleiri nú og þau eru ekki talin með kjörsókn fyrr en kjörfundi lýkur.

Lokið í Fljótsdal og Vopnafirði


Í Fljótsdal lauk kjörfundi klukkan 18:00. Þar var kjörsókn alls 80,2%, þar af 47,5% á kjörstað. Kjörgögn verða flutt í Egilsstaði.

Kjörstað á Vopnafirði var lokað á sama tíma. Heildarkjörsókn var 75%, þar af 51% á kjörstað. Það er minna en í forsetakosningunum þegar kjörsókn varð tæp 80%. Dagurinn hefur gengið vel og ekkert hamlað því að íbúar í sveitum komist á kjörstað.

Björgunarsveitin Vopni flytur kjörgögnin á talningarstað á Akureyri. Hún fer meðfram norðurströndinni og tekur með kjörgögn frá fleiri stöðum á leiðinni.

Kjörgögn á Borgarfirði afhent í blindbyl á Vatnsskarði


Kjörgögn frá Borgarfirði eru á leið í Egilsstaði. Kjörfundi lauk þar klukkan 17. Kjörsókn varð 82%, þar af 53% á kjörstað. Björgunarsveitarbíll frá Egilsstöðum flutti fulltrúa yfirkjörstjórnar á móts við kjörstjórnarmeðlimi á Borgarfirði til að taka við kjörgögnum. Þau voru afhent uppi á Vatnsskarði rétt upp úr klukkan 18 í „glórulausu veðri.“

Á Djúpavogi þurfti að framlengja kjörfund. Þátttaka á kjörstað var komin upp í 53% klukkan 18. Björgunarsveitin Bára mun flytja kjörgögnin í Egilsstaði og vonast er til að hún fari af stað upp úr klukkan 19.

Á Seyðisfirði var kjörsókn klukkan 18:00 komin í 45,6% en kjörstaður er opinn til 20:00. Björgunarsveitin Ísólfur er reiðubúin að flytja kjörgögnin, ef Fjarðarheiði lokast aftur en hún var opnuð klukkan hálf fimm.

Stefnt á að fljúga með atkvæði norður


Á Egilsstöðum er kjörsókn í kjördeild 1 46,6% en 43,1% í kjördeild 2. Íbúar í sveitum eru í seinni kjördeildinni en þeir voru duglegir í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Heildarkjörsókn í Múlaþingi var 46,7% klukkan 18:00

Klukkustund fyrr var hún 42,2%, samanborið við 43% á sama tíma í forsetakosningunum, en þar vantar inn utankjörfundaratkvæði.

Atkvæði í Norðausturkjördæmi verða talin á Akureyri. Þegar aðstæður henta er flogið með þau frá Egilsstöðum. Enn er vonast til að hægt verði að fljúga. Innanlandsflug hefur verið á áætlun í dag og með atkvæðin fljúga sjúkraflugmenn, sem fljúga við almennt verri skilyrði en farþegaflugið.