Kjörkassarnir að austan komu síðastir

Kjörkassar af Austurlandi komi síðastir á talningarstað í Brekkuskóla á Akureyri í Alþingiskosningunum um síðustu helgi.

Þetta kemur fram í fundargerð kjörstjórnar. Öllum kjörkössum frá Borgarfirði til Djúpavogs var safnað saman á Egilsstöðum og flogið með þá til Akureyrar. Þeir komu á talningarstað klukkan tvö aðfaranótt sunnudags.

Þremur mínútum fyrr bárust kassar frá Vopnafirði, Langanesbyggð, hluta Norðurþings og Skútustaðahreppi. Félagar úr björgunarsveitinni Vopna fluttu þá á staðinn.

Fyrstir á vettvang voru skiptikassar frá Akureyri upp úr klukkan hálf sjö á laugardagskvöld. Á slaginu sjö komu kassar úr Svalbarðsstrandarhreppi og um klukkan átta skiptikassar úr Fjallabyggð og Dalvík.

Áður en fyrstu tölur birtust úr kjördæminu á ellefta tímanum bættust við kassar úr Hörgársveit og Grýtubakkahreppi. Af þessu má draga þá ályktun að á þessum atkvæðum hafi fyrstu tölur úr kjördæminu byggt.

Í fundargerðinni kemur einnig fram að þrjú framboð hafi ekki sent fulltrúa á vettvang til að vera viðstaddir undirbúning og talningu atkvæði. Ekki eru skráðir fulltrúar frá Framsóknarflokki, Pírötum eða Frjálslynda lýðræðisflokknum.

Talningu lauk klukkan 9:20 á sunnudagsmorgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.