Skip to main content

Kjörstaðir opna á réttum tíma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2024 09:07Uppfært 30. nóv 2024 09:08

Kjörstaðir á Austurlandi opna á réttum tíma. Leiðir milli fjarða og yfir heiðar eru enn merktar ófærar eftir mikla snjókomu í nótt og fjallvegir eru á óvissustigi.


Kjörstaðir í Fjarðabyggð opna allir klukkan níu og öll kjörgögn fóru á sinn stað í gærkvöldi. Mest úrkoma eftir nóttina er þar, annars vegar 16 mm á Fáskrúðsfirði og 15 mm í Neskaupstað auk 8,5 mm á Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði er enn logn meðan kóf er í Neskaupstað.

Gísli Auðbergsson, formaður kjörstjórnar, var á leið til Norðfjarðar með utankjörfundaratkvæði þegar Austurfrétt náði af honum tali. Hann sagði götur á Eskifirði vel ruddar og greinilegt að mikill metnaður væri í snjómokstrinum í morgun.

Leiðin milli Fáskrúðsfjarðar og Djúpavogs er merkt ófær en verið að moka. Gísli segir að æskilegt sé að koma utankjörfundaratkvæðum í viðkomandi kjördeildir en ekki nauðsynlegt. Á eftir komi í ljós hvort hægt verði að keyra þau öll út.

Hiti á Austfjörðum er víða rétt undir frostmarki, -2 til -3 gráður. Landslagið myndi gerbreytast ef hitinn færi upp fyrir frostmark þannig úrkoman félli sem slydda en ekki snjór í byggð.

Í Múlaþingi er opnun kjörstaða einnig á áætlun og kjörgögn komin á staðinn. Á Borgarfirði, Egilsstöðum og Seyðisfirði opnar klukkan níu en tíu á Djúpavogi. Veðrið á Egilsstöðum í morgun hefur verið ágætt þótt sýnilegt sé að kófað hafi í nótt.

Hlynur Jónsson, formaður kjörstjórnar Múlaþings, segir að staðan verði metin þegar líður á daginn, en þá er spáð vaxandi hvassviðri. Ef svo fari að kjósendur komist ekki á kjörstað þurfi að taka ákvarðanir út frá því.

Vegagerðin hefur fært leiðirnar yfir Vatnsskarð, Fjarðarheiði og Fagradal á óvissustig sem þýðir að þær geta lokað með skömmum fyrirvara. Þæfingur er á Fagradal, Hólmahálsi, í Norðfirði og á Borgarfjarðarvegi en þungfært í Jökulsárhlíð.